Hrottalegt ofbeldi tímum saman

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem maðurinn ræðst á …
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem maðurinn ræðst á konuna en þau voru áður í sambúð og eiga tvö börn saman. Maðurinn neitar sök og segir að hún vilji harkalegt kynlíf. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem er grunaður um að hafa beitt barnsmóður sína hrottalegu ofbeldi.  Maðurinn er með dóm á bakinu vegna heimilisofbeldis gagnvart konunni árið 2014. 

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 24. júlí og er það niðurstaða Hæstaréttar að hann verði áfram í gæsluvarðhaldi til 26. ágúst. 

Í dómi Hæstaréttar er vísað í greinargerð lögreglunnar á Suðurnesjum en þar kemur fram að lögregla var send á heimili konunnar snemma morguns 24. júlí að beiðni Neyðarlínunnar og var maðurinn þá sofandi í sófa á heimili hennar. Hún greindi lögreglu frá miklu ofbeldi sem hann hafði beitt hana um nóttina og var hún, sem og maðurinn, með sýnilega áverka. Á vettvangi hafi einnig verið greinilega ummerki um átök. Hún var flutt á neyðarmóttöku Landspítalans en maðurinn, sem er fyrrverandi sambýlismaður hennar, og eiga þau tvö börn saman, var handtekinn.

Ofbeldið stóð yfir í tvær klukkustundir

Við skýrslutökur kom fram að maðurinn hafði komið á heimili hennar fimmleytið um nóttina ásamt félaga sínum. Konan hafi verið komin í náttföt og hafi sagst ætla í rúmið. Skömmu síðar hafi þeir komið inn í herbergi og upp í rúm til hennar. Hafi þeir verið á nærbuxunum einum fata. Fyrrverandi sambýlismaður hennar bað hana um að sofa hjá þeim báðum en hún hafi neitað og beðið þá um að fara sem þeir hafi gert.

Skömmu síðar kom barnsfaðir hennar aftur og bað um að fá að gista sem hún samþykkti gegn því að hann gisti í sófanum. Þar sem hún vildi ekki hafa samfarir við hann þá réðst hann á hana og nauðgaði og stóð ofbeldið yfir í tvær klukkustundir. Hann nauðgaði henni ítrekað, barði hana og hótaði. Hafi hann þannig haft við hana samfarir um munn, í leggöng og í endaþarm.

Maðurinn hótaði henni með hníf og bar meðal annars hníf að hálsi hennar á meðan hann nauðgaði henni og var hún með áverka eftir hnífinn. Konan sagði við manninn að sér væri svo heitt en hann meinaði henni að opna glugga en leyfði henni að fara í sturtu. Hann hafi svo nauðgað henni í sturtunni og skellt henni á vegg þar.

Konan reyndi að komast að útidyrahurðinni til að kalla á hjálp en hann náði henni, hélt henni niðri og tók hana kverktaki þar til hún missti meðvitund. Einnig hafi komið fram hjá konunni að maðurinn hafi ítrekað hótað henni lífláti og jafnvel talað um að taka eigið líf um leið.

Við skýrslutöku kom fram að ofbeldismaðurinn hafi á einum tímapunkti brotnað niður og farið að gráta og boðið henni að hringja á lögreglu. Hafi hann rétt henni síma sinn til þess en tekið hann aftur þegar hún reyndi að hringja. Þá hafi hann veitt sjálfum sér áverka á háls með hnífnum. Eftir þetta hafi ekki verið meira ofbeldi en konan var of hrædd til að reyna að komast burtu. Hún reyndi að senda skilaboð á Neyðarlínuna en þegar ekkert hafi gerst hafi hún sent vinkonu sinni skilboð með Snapchat en sú hafi þá hringt í Neyðarlínuna.

Áverkar sem ekki koma við venjulegt kynlíf

Jafnframt segir í greinargerð lögreglunnar að í læknisskýrslu frá Landspítalanum komi fram að áverkar á konunni séu í samræmi við frásögn hennar af atburðum og hún sé með útbreidd verksummerki um ofbeldi um allan líkama. Þá hafi jafnframt komið fram í niðurstöðu læknis að við skoðun á kynfærum hefðu komið fram áverkar á kynfærum sem ekki kæmu við venjulegt kynlíf.  Við skoðun lögreglu á vettvangi hafi mátt sjá blóðslettur víða um íbúðina. Blóðugur beittur hnífur fannst í vaski baðherbergisins.

Sagði að hún vildi hafa kynlífið harkalegt

Maðurinn neitar sök og sagði við skýrslutöku hjá lögreglu að þeir hafi bara verið að grínast þegar þeir komu upp í rúm til konunnar. Félagi hans hafi farið fljótlega en hann og fyrrverandi sambýliskona hans hafi haft samfarir með hennar vilja. Hún vilji hafa samfarir harkalegar og biðji hann um að slá sig utan undir og rífa í hárið sér og líka taka utan um hálsinn á sér. Sagðist maðurinn halda utan um hálsinn á henni í stutta stund í hvert skipti sem hann geri það. Hann hafi ekki haldið þannig að væri óþægilegt, þannig að hún væri að fara missa andann, þetta hafi bara verið í örfáar sekúndur.

Segir að hún fari mikið úr hárum

Samfarirnar hafi staðið yfir í um 15 til 20 mínútur, eftir það hafi þau farið í sturtu. Eftir það hafi hann fengið Snapchat-skilaboð frá stelpu sem konan hafi séð og misst stjórn á skapi sínu, sótt hníf og hótað honum og veitt áverka á hálsi. Hann hafi verið undrandi og spurt hana hvað hún væri að hugsa. Þá hafi hún sýnt honum fram á að þetta væri ekki hættulegur hnífur og hafi hún við það óvart veitt sjálfri sér áverka á höku. Um áverka að öðru leyti kvaðst hann vita til þess að hún hafi lent í slagsmálum niðri í bæ á síðasta fylleríinu sínu.

Aðspurður um hár sem fannst á vettvangi, svo sem á gólfi baðherbergisins lýsti hann því að hún færi mikið úr hárum.

Samkvæmt framburði félaga mannsins vísaði konan þeim út úr íbúðinni og hún hafi ekki verið með neina áverka þegar hann yfirgaf heimili konunnar

Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins þyki vera, að mati lögreglu, sterkur grunur um að ofbeldismaðurinn hafi gerst sekur um verknað sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi. Þá sé verknaðurinn, að mati lögreglustjóra, þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sé einnig talið að til þess verði að líta að maðurinn hafi hlotið fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir tvær líkamsárásir gagnvart konunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert