Íslensk hjörtu slá fyrir stúlkur í Úganda

Karl Fannar Sævarsson og Konráð S. Guðjónsson.
Karl Fannar Sævarsson og Konráð S. Guðjónsson. mbl.is/Júlíus

Þeir Karl Fannar Sævarsson og Konráð S. Guðjónsson ætla að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, til styrktar stúlknaskóla í Úganda.

Málefnið er þeim kært, en þeir hafa báðir dvalið í Úganda. Samtökin sem þeir hlaupa fyrir heita Alnæmisbörn, en munu brátt breyta um nafn og heita þá CLF á Íslandi. Upphaflega voru samtökin stofnuð til aðstoðar alnæmissjúkum, en síðan þá hefur tíðni alnæmis minnkað mikið í landinu, útskýra Karl og Konráð.

CLF stendur fyrir Candle Light Foundation, sem er skólinn í Úganda sem þeir hlaupa fyrir. Mannfræðingurinn Erla Halldórsdóttir stofnaði Candle Light Foundation árið 2001 sem er kerta­gerð og vinnustað fyr­ir munaðarlaus­ar stúlk­ur. Erla lést 2004.

Hafa báðir starfað í Úganda

Karl starfaði sem sjálfboðaliði í skólanum í Úganda 2013 og þekkir hann því vel. „Ég var að sinna enskukennslu. Nú er það dottið út og eingöngu einblínt á verkmenntun ungra stúlka.“ Stúlkurnar læra þar eldamennsku, fatasaum og hárgreiðslu en Karl og Konráð segja mikilvægt að styðja við verkmenntun í landinu.

Frétt mbl.is: „Ég varð að fara hingað“

„Það er skortur á verkmenntuðu fólki í Úganda, sem lærir gott handbragð. Það er fullt af menntuðu fólki í Afríku sem er búið með háskólanám, en fær enga vinnu.

Stúlka í skólanum saumar.
Stúlka í skólanum saumar. mbl.is

Konráð er nýkominn inn í Alnæmisbörn, þar sem hann situr í stjórn, en hann hefur fjórum sinnum sótt Úganda heim. „2009 fór ég sem sjálfboðaliði, 2012 ferðaðist ég þangað, 2013 fór ég sem starfsnemi og 2014 aftur sem ferðamaður.“

Karl hefur einnig farið út sem starfsnemi, en þeir piltar fóru báðir á vegum Þróunarsamvinnu Íslands og sinntu fjölbreyttum störfum í Úganda.

„Ég var að hjálpa verkfræðingnum að fara yfir útboðsgögn, ég var að skipuleggja skjalageymslur, ég var að vinna úr niðurstöðum íbúafunda,“ svarar Konráð, spurður um hvers konar störf hann hafi fengist við. „Ef það er eitthvert land þar sem maður vill styðja við góðgerðastarfsemi í er það Úganda.“

Safna fyrir vatni

Peningurinn sem safnast í hlaupinu verður notaður til að koma rennandi vatni til stúlknanna í skólanum, en þær eru um 250 talsins og búa á heimavist. Skólinn er ekki lengur í upprunalegu húsnæði, en nýtt skólahús var byggt fyrir söfnunarfé og styrk frá utanríkisráðuneytinu, í útjaðri höfuðborgarinnar, Kampala.

„Það er engin vatnsveita eða neitt svoleiðis, svo það vantar pening fyrir borholu,“ segir Konráð. „Á síðasta ári var hlaupið til að safna fyrir húsgögnum og í ár er áhersla á vatnið. Það þarf að grafa brunn.“

Í dag verða stúlkurnar að reiða sig á regnvatn, sem safnað er í tank. Klárist það, eða komi þurrkatíð, verða þær að leita vatns annars staðar.

„Þær verða að treysta á það, annars verða þær að fara og sækja í vatnsbrunn einhvers staðar, þá eru það um 5 kílómetrar sem þarf að labba.“

Karl Fannar í skólanum 2013.
Karl Fannar í skólanum 2013. mbl.is

Hleypur hálfmaraþon ef vel gengur

Söfnun þeirra fer hægt af stað, en drengirnir vonast til að hún taki við sér. „Þetta styrkir málefni sem ég get alveg ábyrgst að sé til góðs. Hið opinbera á Íslandi eyðir skammarlega lágum fjármunum í þróunarmál, að okkar mati, og þess vegna finnst okkur enn mikilvægara að einstaklingar vegi upp á móti og styðji við þróunarverkefni.“

Öll starfsemi Alnæmisbarna er sjálfboðavinna og engir milliliðir eru á milli þeirra og skólans í Úganda. „Það er einmitt kosturinn held ég,“ segir Konráð.

„Engir milliliðir, engin yfirbygging, tiltölulega einföld starfsemi sem er komin af stað og það er bara að halda vélinni vel smurðri, það er okkar hlutverk.“

Stefna þeir á að ljúka hlaupinu á undir einni klukkustund, en lukkist það ágætlega, ætlar Konráð að hlaupa hálft maraþon á næsta ári. „Ef ég safna svolítið meira og ég verð eitthvað nálægt klukkutíma fer ég 21 kílómetra næst.“

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Karl og Konráð í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks.

Frá opnunarhátíð nýja skólans í Kampala. Áhersla er lögð á …
Frá opnunarhátíð nýja skólans í Kampala. Áhersla er lögð á verkmenntun stúlkna í skólanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert