„Þessari störukeppni verður að ljúka“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, telur að best sé að slíta þinginu á mánudaginn og boða kosningar innan sex vikna.

„Mér finnst málið vera komið í það mikinn hnút að það verði að leysa þetta með einhverjum hætti. Ég tel best að þingmenn fari núna og endurnýi umboð sitt. Þetta kemur til með að vera mikil störukeppni ef þetta verður sem fram horfir,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

Vigdís tjáði sig fyrst um málið á Facebook-síðu sinni:

„Ég merkti það í hádegisfréttum í dag að það eru ýmsar meiningar og verið að búa til ágreining í hinu og þessu málinu, vegamálum, búvörusamningunum og þessum málum sem var almenn sátt um,“ bætir hún við. „Þannig að ég held að þetta sé hagfellt fyrir landsmenn í stað þess að horfa á þingið fara enn neðar í virðingu og þessum kjánagangi sem á sér stað.“

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gagnrýnt ákvörðun formanna ríkisstjórnarflokkanna um að hafa þegar tilkynnt kjördag. 

Vildi kjósa í vor

Spurð hvort Vigdís sé sammála Gunnari Braga hvað það varðar, segist hún vera hlutlaus. „En til að rifja upp var ég með því að það ætti að kjósa strax í vor þegar kom upp sú staða. Ég studdi það að þingi ætti að slíta og fara í kosningar innan sex vikna frá þeim degi í apríl. Það varð ekki ofan á og það var farið af stað með vantraust í gegnum þingið sem var feill,“ segir hún.

Botnar ekkert í vitleysunni

„Samkvæmt stjórnskipunarreglum hér á landi og lögum situr þingið út kjörtímabilið ef vantraust er fellt. En ég botna ekkert í þessari vitleysu, hvernig málum er komið. Það er gríðarlega sterkur meirihluti í þinginu, mikill uppgangstími á þessu kjörtímabili, virkilega góð verk hafa verið unnin og ekkert sem bendir til stjórnarkreppu eða að það sé ekki hægt að mynda starfhæfan meirihluta, en ég botna ekkert í því hvernig málum er komið. Þessari störukeppni verður bara að ljúka og ég held að það sé best að leysa það með alþingiskosningum úr því sem komið er,“ greinir Vigdís frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert