„Kallaði mig Donald Trump“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemdir við hvernig félagar í Samfylkingunni hefðu talað um hann sjálfan og aðra sjálfstæðismenn á Alþingi í dag. Rifjaði hann upp að Oddný G. Harðardóttir hefði kallað hann Donald Trump við lok þings í vor.

Þingmaðurinn sagði umræðu á vegum Samfylkingarinnar hafa vakið athygli að undanförnu og taldi hann sig merkja breyttar áherslur í ræðu og riti félaga hennar. Velti hann vöngum yfir því hvort að það væri að leiðsögn formannsins.

„Í lok þings í vor kallaði formaðurinn mig Donald Trump og lýsti mér sem einhverjum rasista í því sambandi. Hún hefur hrósað Selmu Erlu Sedar fyrir að kalla mig rasista á opinberum vettvangi og fannst það vel að verki staðið,“ sagði Ásmundur í umræðum um störf þingsins í dag.

Þá rifjaði hann upp að Óskar Steinn Jónínu Ómarsson, ritari Samfylkingarinnar, hefði kallað þrjá frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi ýmsum nöfnum, þar á meðal hann sjálfan. Ummælin viðhafði Óskar Steinn á Twitter en þar sagði hann duglausan ráðherra, rasista og dæmdan þjóf berjast um oddvitasætið og vísaði þar til Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, Ásmundar og Árna Johnsen.

„Ég velti fyrir mér hvort það sé þessi leið sem Samfylkingin vill fara í að tala um fólk,“ sagði Ásmundur.

Standist freistingu að tala inn í ótta við hið óþekkta

Oddný kom þá í pontu og sagðist engum hafa hrósað fyrir að hafa kallað Ásmund rasista. Málfrelsi ríki í Samfylkingunni og formaðurinn segi félögum ekki hvað þeir megi eða megi ekki segja.

„Hins vegar legg ég ríka áherslu á að allir gæti orða sinna og varist að fella dóma og særa fólk og að mannúð og mannvirðing sé ávalt í fyrirrúmi,“ sagði Oddný.

Í þessu sambandi sagði hún þingmenn ekki síst þurfa að gæta orða sinna. Rifjaði hún upp þegar Ásmundur velti vöngum á Facebook-síðu sinni yfir því hvort ástæða væri til að rannsaka bakgrunn þeirra 1.500 múslima sem byggju á Íslandi. Það hefði vakið reiði margra og sært.

„Háttvirtur þingmaður vildi kanna hvort að einhverjir „íslenskir múslimar“ sem háttvirtur þingmaður setti innan gæsalappa einhverra hluta vegna hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrlandi eða öðrum stríðshrjáðum löndum,“ sagði Oddný.

Oddný sagði að einhverjir hefðu skilið Ásmund svo að hann hvetti til mismununar og ýtti undir fordóma. Alþingismenn ættu að gæta hagsmuna allra, óháð uppruna og trúarbrögðum, og varast að ýta undir hatur og fordóma. 

„Það getur reynst sumum freisting í aðdraganda kosninga að tala inn í óttann við hið óþekkta en við verðum að standast slíkt og hafa alltaf að leiðarljósi mannúð og mannréttindi,“ sagði formaður Samfylkingarinnar.

Frétt mbl.is: Spyr um rannsóknir á múslimum á Íslandi

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert