Langflestir kjósa verðtryggt lán

Hlutdeild óverðtryggðra lána óx í bankakerfinu á tímabili eftir fjármálahrunið.
Hlutdeild óverðtryggðra lána óx í bankakerfinu á tímabili eftir fjármálahrunið. mbl.is/Ómar

Langstærstur hluti íbúðalána hér á landi, eða um 86%, eru verðtryggð lán. Þó hefur hlutfallið farið lækkandi á undanförnum fjórum árum en það var sem dæmi tæp 92% árið 2012.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í greinargerð sem fylgir frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um takmörkun á verðtryggðum jafngreiðslulánum til langs tíma, svonefndnum Íslandslánum.

Í frumvarpinu er lagt til að almenna reglan verði sú að ekki verði heimilt að taka verðtryggt lán lengur en til 25 ára. Víðtækar undanþágur verða þó veittar frá því, þar á meðal ungu fólki, tekjulágum og lántökum með lágt veðsetningarhlutfall.

Fram kemur í greinargerðinni að á tímabili eftir fjármálahrunið hafi hlutdeild óverðtryggðra lána í bankakerfinu vaxið. Á árinu 2013 námu veitt verðtryggð íbúðalán til fjörutíu ára um 48 milljörðum króna, að langmestu leyti jafngreiðslulán.

Hlutdeildin minnkað undanfarið

Á sama ári námu óverðtryggð lán til fjörutíu ára um 30 milljörðum króna. Verðtryggð lán til 25–29 ára námu tæpum tíu milljörðum króna en óverðtryggð lán með sama lánstíma um tólf milljörðum. Hefur hlutdeild óveðrtryggðra íbúðalána farið minnkandi á undanförnum misserum.

Úr greinargerðinni

Einnig er bent á að í lok síðasta árs hafi óverðtryggðar íbúðaskuldir með veði í fasteign numið rúmlega 200 milljörðum króna. Hafi hlutur óverðtryggðra íbúðalána á sex árum, eða frá því í lok árs 2009, aukist frá því að vera nær enginn í að vera um 15% af íbúðalánum með veði í fasteign.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert