Hjörleifshöfði auglýstur til sölu

Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi.
Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hjörleifshöfði ásamt stórum hluta af Mýrdalssandi hefur verið auglýstur til sölu. Fjárfestar tengdir ferðaþjónustu hafa einkum sýnt jörðinni áhuga, að sögn fasteignasala. Óskað er eftir tilboðum en verðhugmyndir seljenda eru á bilinu hálfur til einn milljarður króna.

Eyðijörðin Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi er kennd við Höfðann sem er gróin eyja á sandinum. Hafursey tilheyrir einnig jörðinni ásamt söndum, fjörum, uppgræðslusvæði við hringveginn og námusvæði. Jörðin í heild er talin 11.500 hektarar.

Viðræður við ríkið

Hjörleifshöfði er í einkaeigu og ekki þjóðlenda. Eigendurnir eru Þórir N. Kjartansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Vík, og systur hans Áslaug og Halla. Þau fengu jörðina í arf en forfeður þeirra bjuggu í Hjörleifshöfða. Systkinin buðu ríkinu að kaupa eignina en viðræður sem staðið hafa í átta ár hafa ekki borið árangur og ákváðu eigendurnir því að setja jörðina í opið söluferli.

Ólafur Björnsson, hrl. hjá Lögmönnum Suðurlandi, segir að þeir fjárfestar sem sýnt hafi áhuga á kaupunum hugsi til ferðaþjónustu, hótelbyggingar og útivistar. Ýmsir möguleikar séu á því sviði. Nefnir hann að þar hafi kvikmyndir verið teknar upp og jörðin sé nýtt til fjórhjólaferða.

Lítt gróinn sandur

Sandurinn er að mestu leyti svartur og lítt gróinn en Landgræðslan hefur varið hringveginn, meðal annars með gróðursetningu lúpínu. Gerðar hafa verið tilraunir til að rækta kartöflur og repju í lúpínubreiðunum og gengið vel. Þá hefur Kötluvikur verið rannsakaður með tilliti til útflutnings. Eiga núverandi eigendur jarðarinnar aðild að fyrirtækjum sem athugað hafa notkunarmöguleika vikursins. Er talið sjálfgefið að þeir hlutir fylgi jörðinni.

Eigendurnir óska eftir tilboðum í eignina. Spurður um verðhugmyndir bendir Ólafur á að lægsta verðmat á landi á Íslandi sé um 50 þúsund krónur á hektara.

Miðað við að verðmæti Hjörleifshöfða sé eitthvað umfram það megi reikna með 500 til 1.000 milljónum króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert