Lést í fjallgöngu í Noregi

Jón Egill Kristjánsson, prófessor í veðurfræði.
Jón Egill Kristjánsson, prófessor í veðurfræði.

Íslendingur sem hefur verið búsettur um árabil í Noregi féll til bana í fjallgöngu í Jötunheimum í Noregi á sunnudaginn. Um hörmulegt slys var að ræða. 

Jón Egill Kristjánsson, 55 ára prófessor í veðurfæði við háskólann í Ósló, lést á Falketind í Årdal síðdegis á sunnudag. Jón Egill var á leið niður fjallið, sem er 2.067 metrar að hæð, með félaga sínum þegar slysið varð. Þeir félagar þurftu að tryggja sig í línu í 1.700 til 1.800 metra hæð og festu línuna í festingu sem skrúfuð er í bjargið á þessum stað. En svo virðist sem festingin hafi gefið sig og féll Jón Egill 40 metra.

Að sögn bróður Jóns Egils var hann þrautþjálfaður fjallgöngumaður og var byrjaður að starfa með hjálparsveit hér á landi sextán ára. Síðan þá hefur hann verið mjög virkur í fjallamennsku, í Noregi, þar sem hann hefur búið frá átján ára aldri, Íslandi og Bandaríkjunum en hann hefur dvalið þar langdvölum vegna starfs síns.

Jón Egill lætur eftir sig eiginkonu og son en fjölskyldan er búsett í Asker, skammt fyrir utan Ósló. Hann er vel þekktur fyrir rannsóknir sínar í veðurfræði, meðal annars á orsökum og afleiðingum loftslagsbreytinga og breytinga á veðurfari. Jón Egill hefur um langt árabil unnið að rannsóknum með íslenskum veðurfræðingum, svo sem Halldóri Björnssyni, Haraldi Ólafssyni og Guðrúnu Nínu Petersen.

Falketind (Fálkatindur)
Falketind (Fálkatindur) Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert