Vilja þjóðaratkvæði um aðildarviðræður

mbl.is/Eggert

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Er þá gert ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða kosningum til Aþingis sem boðaðar hafa verið 29. október.

Yrði þá eftirfarandi spurning borin upp:

 „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að sams konar tillaga hafi verið lögð fram á síðasta löggjafarþingi en ekki náð fram að ganga. Fullyrða þingmennirnir að ekki hafi verið orðið við þeirri kröfu að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar, þrátt fyrir fyrirheit stjórnarflokkanna í aðdraganda síðustu kosninga.

„Álitaefnið um aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur lengi klofið þjóðina í tvær fylkingar. Vegna framangreindra atburða er óvissan um málefnið algjör og stendur framgangi annarra mála í vegi þar sem ómældum tíma og orku er varið í þrætur um aðildarumsókn Íslands.

Að mati flutningsmanna þessarar tillögu er brýn þörf á að fá úr því skorið með þjóðaratkvæðagreiðslu hvort vilji þjóðarinnar standi til að taka upp þráðinn og ljúka þeim aðildarviðræðum sem hafnar voru eða ekki. Gert er ráð fyrir að sá aðildarsamningur sem fengist út úr viðræðunum yrði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í greinargerðinni.

Flutningsmenn tillögunnar eru þau Páll Val­ur Björns­son, Björt Ólafs­dótt­ir, Bryn­hild­ur Pétursdóttir, Guðmund­ur Stein­gríms­son, Ótt­arr Proppé og Ró­bert Mars­hall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert