Píratar „alls ekki eins máls flokkur“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Mér finnst þetta svolítið eins og að rökræða hvort þróunarkenningin sé rétt eða ekki, þetta er alveg þar í absúrdismanum,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, um yfirlýsingar þess efnis að Pírötum hafi verið breytt í eins máls stjórnmálaflokk sem hverfist fyrst og síðast um stjórnarskrármál stjórnlagaráðs. Segir hann það sannanlega rangt og auðvelt sé að sjá það, sama hvert litið sé í starfi flokksins.

Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata, sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir helgi að hún gæti ekki kosið Pírata að óbreyttu þar sem flokkurinn væri orðinn að eins máls stjórnmálaflokki sem hverfðist um stjórnarskrármálið. Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, sagði svo í samtali við blaðið í dag að hann væri sammála henni að nokkru leyti, en það væri orðum aukið að flokkurinn snúist aðeins um þetta eina mál.

Eðlilegt að athygli sé beint að stjórnarskrármálinu

„Það er sannanlega ekki rétt að Píratar séu eins málefnis flokkur. Þrátt fyrir að einhver einn einstaklingur velti sér mest upp úr ákveðnu máli þá þýðir það ekki að það séu engin önnur málefni,“ segir Helgi Hrafn. „Það þarf ekki að leita lengra en í það sem við leggjum fram og tölum um á Alþingi, það sem við segum í fjölmiðlum og svo allar þær stefnur sem við erum með í kosningakerfinu okkar til að sjá að þetta er alls ekki eins málefnis flokkur.“

Hann segir stjórnarskrármálið þó vera mikilvægt mál hjá flokknum og vissulega sé athygli beint að því. „Stjórnarskráin er grunnurinn að löggjöfinni á Íslandi svo það er eðlilegt að það fái ríkan sess í umræðunni okkar og sé áberandi hluti af okkar stefnumörkun. Það væri skrítið ef stjórnarskrármálið ætti að heita aukaatriði.“

„Það má kalla þetta vinstri slagsíðu ef menn vilja“

Þá sagði Halldór Auðar í Morgunblaðinu í dag að nokkur vinstri slagsíða hefði komið í ljós í stefnumótun Pírata síðustu vikur og mánuði hvað varðar ríkisfjármálin. Helgi Hrafn segir að eðlilegt sé að ríkur þrýstingur í samfélaginu um að auka útgjöld til heilbrigðismála til dæmis, komi í ljós í ferlum þar sem fólk greiðir atkvæði eftir sinni sannfæringu.

„Það má kalla þetta vinstri slagsíðu ef menn vilja. En ég er sjálfur þeirrar skoðunar að mér finnst almennt að stefna í ríkisútgjöldum eigi að vera hluti af einhvers konar markmiðayfirlýsingu. Mér finnst ekki mjög rökrétt að hafa það að stefnu á einhverjum ákveðnum tímapunkti að auka skuli þetta eða minnka hitt vegna þess að svo breytast aðstæður. Stefna sem ég myndi vilja sjá verða að veruleika er einhver sem tilgreinir ekki tilteknar prósentur eða upphæðir heldur er með heildarviðmið út frá markmiðum,“ segir Helgi Hrafn.

Þá sagði Erna Ýr í samtali við Morgunblaðið í dag að hún teldi að margir þeirra sem röðuðust á lista Pírata hneigðust til vinstri. Helgi Hrafn segist ekki skilja hvernig hún hafi komist að þeirri niðurstöðu. „Þarna er fólk eins og Jón Þór Ólafsson ofarlega, en hann hefur nú aldrei verið kallaður vinstrimaður af neinum að mér vitandi,“ segir hann.

Kosningaloforð óábyrg og popúlísk

Halldór Auðar sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að hann hefði talað fyrir því að fyrir kosningar yrði settur saman listi yfir þau mál sem raunhæft sé að ráðast í á komandi kjörtímabili. Aðspurður um þetta segist Helgi Hrafn vera á móti kosningaloforðum.

Nú get ég bara sagt persónulega skoðun mína sem er alfarið mín og ekki opinber skoðun Pírata. Ég er sjálfur á móti kosningaloforðum. Mér finnst þau óábyrg og popúlísk. Mér finnst þau ekki í neinum tengslum við það hvernig pólitík virkar. Hún virkar ekki þannig að maður fái völd og þá geti maður allt í einu gert það sem manni sýnist, sem betur fer,“ segir hann og heldur áfram:

„Hins vegar höfum við lagt fram þessi þrjú atriði sem við leggjum höfuðáherslu á. Eitt þeirra, sem ég lít reyndar frekar á sem skilyrði en sem loforð, er að ráðherrar verði ekki þingmenn á sama tíma og þeir eru ráðherrar. Þetta er algjörlega sjálfsögð krafa sem engum ætti að finnast neitt athugavert við og var ákveðið hjá okkur með yfirþyrmandi meginhluta. Auk þess höfum við ákveðið að leggja áherslu á stjórnarskrármálið og bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert