Svarar ekki fyrir aðra ráðherra

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist styðja einföldun almannatryggingakerfisins en hann sé ekki sannfærður um að það frumvarp sem er í smíðum og gerir m.a. ráð fyrir auknum útgjöldum vegna ellilífeyris sé til þess fallið að draga úr skerðingum í öllum tilfellum.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Þar spurði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hvort ekki stæði til að afgreiða á haustþingi tillögur starfshóps sem skoðað hefur einföldun og hækkun ellilífeyrisins og full samstaða hefði verið um.

Bjarni sagði að ríkisstjórnin hefði lagt mikla áherslu á það að bæta kjör eldri borgara og öryrkja; dregið skerðingar til baka og hækkað bætur. 28 milljörðum hefði verið varið til þessa, umfram það sem áður var.

Þá sagði hann að drög að umræddu frumvarpi hefðu annars legið frammi á vef velferðarráðuneytisins. Hann hefði beðið þess að ráðherra umrædds málaflokks tefldi því fram í ríkisstjórn, hann gæti ekki svarað því hvað aðrir ráðherrar gerðu með sín mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert