Full búð af fólki en engir starfsmenn

Bónus Laugavegi.
Bónus Laugavegi.

Starfsmönnum Bónuss á Laugavegi láðist að loka versluninni á Menningarnótt með þeim afleiðingum að fjöldi viðskiptavina var inni í versluninni tæpri einni og hálfri klukkustund eftir auglýstan lokunartíma.

Maður, sem staddur var í versluninni á laugardag, segir að fólk hafi að mestu verið afslappað og glott eða hlegið þar sem það vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þar sem enginn var að afgreiða. Hann hafi til að mynda gert tilraun til þess að finna starfsmann og gekk um hvern krók og kima í húsnæðinu en fann engan.

Hann segir að verslunin hafi verið full af fólki þar til starfsmaður kom loks á vettvang og rak fólk út „með látum“ og meðal annars ýtti við viðskiptavini. Að sögn mannsins komu einnig tveir lögreglumenn á svæðið í stutta stund eftir að verslunarstjórinn kom á svæðið. Þá var fólk enn að reyna að komast inn í verslunina.

Ósáttir að fá ekki að versla

Axel Sigurðsson, verslunarstjóri í Bónus á Laugavegi, segir að gleymst hafi að læsa þeim dyrum sem hleypa fólki inn í búðina, hins vegar var ekki auðsótt að yfirgefa verslunina þar sem útgangurinn var læstur. „Það voru um 100 manns inni í búðinni þegar ég kom. Ég reyndi að reka fólkið út og það tók um fimm mínútur,“ segir Axel.

Að sögn hans voru sumir ósáttir við að fá ekki að versla en allir fóru þó út á endanum. „Sumum fannst ég vera með læti og leiðindi,“ segir Axel, spurður nánar út í ósátta viðskiptavini. „Ég var bara ákveðinn,“ bætir Axel við.

Axel segist ekki vita til þess að neinu hafi verið stolið úr versluninni í fjarveru starfsmanna. „Það komst enginn út þar sem útgangurinn var læstur,“ segir Axel.

Versluninni var lokað klukkan sex en ekki varð vart við mistökin fyrr en kl. tæplega hálfátta á laugardagskvöld þegar Axel kom á svæðið. Að sögn hans fékk hann hringingu frá öryggisdeild Bónuss sem lét hann vita af fólkinu í versluninni.

Axel þekkir ekki til þess að þetta hafi komið fyrir áður. „Ég hlæ nú bara að þessu, það er lítið annað að gera,“ segir Axel.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert