Tengist ekki hagstæðri gengisþróun

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að lækkun gjaldskrár fyrir rafmagnsdreifingu og kalt vatn sem er fyrirhuguð um næstu áramót, komi hagstæðri gengisþróun ekkert við.

Árshlutareikningur samstæðu OR 2016 var samþykktur af stjórn fyrirtækisins í gær. Þar kom fram að gjaldskráin myndi lækka um næstu áramót. Einnig kom þar fram að viðvarandi sparnaður í rekstri og hagstæð gengisþróun eigi þátt í bættri afkomu.

Hann segir batann í fyrirtækinu hafa verið mjög jafnan í tæp sex ár. „Við ætluðum að bæta sjóðsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur um 51 milljarð fyrir árslok 2016 en erum, þegar hálft ár lifir eftir af planinu, búin að bæta hana um 57 milljarða. Allar lykiltölur eru komnar á eðlilegt ról. Eiginfjárhlutfall er komið yfir 38% og nettóskuldir hafa lækkað úr 234 milljörðum í 150,“ greinir Bjarni frá.

„Mjög gott og eðlilegt“

Hann bætir við að rekstrarkostaður hafi lækkað verulega og sé núna orðinn stöðugur. „Það er kveðið á um það í lögum hvað gjaldskrá má vera há varðandi vatnið og rafmagnsdreifinguna og við erum að komast upp undir það þak. Ekki vegna hækkana heldur vegna þess að við höfum dregið saman í rekstrarkostnaði. Þá er mjög gott og eðlilegt að það skili sér til neytenda,“ segir Bjarni en nefnir að fyrirtækið sé ekki alveg komið á sama stað hvað heita vatnið og fráveituna varðar.

Álverð getur haft veruleg áhrif

Hann segir hagstæða gengisþróun ekki vera reiknaða til tekna hjá fyrirtækinu og ekki heldur hvernig verð á áli breytist. „Langtímaspá fyrir álverð getur haft veruleg áhrif, eins og gengisbreytingar, vegna þess að við erum með langtímasamninga um rafmagnssölu til Norðuráls. Ef álverðið hækkar á löngum samningi þá þarf að reikna breytinguna á því og færa það í rekstrarreikning og það sama ef það lækkar. Þetta er eitthvað sem við ráðum ekkert við. Við horfum bara á reksturinn hjá okkur sjálfum. Hvað kostar að reka og hvernig við gerum það best, með sem bestri þjónustu við alla,“ segir Bjarni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert