Tíu ára kastaðist úr bifreið

Laxárdalsheiði í Dalabyggð.
Laxárdalsheiði í Dalabyggð. map.is

Tíu og tólf ára stúlkur slösuðust þegar bifreið rann út af veginum á Laxárdalsheiði í Dalabyggð í gær og fór nokkrar veltur. Fjórir voru í bifreiðinni og voru ökumaður og farþegi í framsæti með öryggisbeltin spennt en stúlkurnar ekki.

Yngri stúlkan kastaðist úr bifreiðinni og var talin hafa lærbrotnað á öðrum fæti og skölfungsbrotnað á hinum. Lögregla var kölluð til um klukkan 18 og tvær sjúkrabifreiðar frá Búðardal, og voru stúlkurnar fluttar til Reykjavíkur til aðhlynningar.

Ökumaðurinn og farþeginn fram í sluppu ómeiddir.

Um var að ræða erlenda ferðamenn á jepplingi. Að sögn lögreglunnar á Vesturlandi er unnið að viðgerðum á veginum en ekki var hægt að sjá að óhappið mætti rekja til þeirra. Vinnusvæðið sé vel merkt. Hins vegar hafði fólkið átt í vandræðum með loft í einu dekkja bílsins og kann það að hafa átt hlut að máli.

Samkvæmt lögreglu er töluvert um að útlendingar lendi í vandræðum á heiðinni. Þeir séu einfaldlega fæstir vanir því að aka á holóttum malarvegum, hvað þá í lausamöl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert