Hefðu viljað sjá námið líka í HÍ

Ráðherra telur aðstæður við HA til þess fallnar að gera …
Ráðherra telur aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunám. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landssamband lögreglumanna fagnar því að lögreglunám skuli loks verða fært upp á háskólastig og að mennta- og menningarmálaráðherra muni ganga til samninga við Háskólann á Akureyri. Formaður félagsins segist hins vegar hafa viljað sjá námið einnig kennt við Háskóla Íslands.

„Því er ekkert að leyna að ef við hefðum ráðið einhverju í þessu þá hefðum við viljað sjá þetta kennt hvort tveggja við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands en við ráðum því víst ekki,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.

Fjarnám við Háskólann á Akureyri vegi þungt

Þeir skólar sem sóttu um að fá að kenna námið og sendu inn gögn voru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík. Umsókn Háskólans á Bifröst uppfyllti ekki hæfiskröfu um viðurkenningu til kennslu í sálfræði. Skipting stigafjölda eftir að matsnefnd hafði farið yfir gögnin var á þá leið að Háskóli Íslands fékk flest stig, eða 128 af 135, Háskólinn á Akureyri kom þar á eftir með 116 stig og þar á eftir kom Háskólinn í Reykjavík með 110 stig.

Snorri segist ekki hafa heyrt hvers vegna ákveðið var að ganga frekar til samninga við Háskólann á Akureyri en Háskóla Íslands, en segist gruna að það vegi þungt hversu vel skólinn er í stakk búinn til að sinna nemendum í fjarnámi.

Þurfa ekki að flytjast búferlum til að stunda námið

Hann segir það þó ekkert nema jákvætt að samið verði við Háskólann á Akureyri vegna kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Sú þekking, reynsla og sá tækjakostur sem skólinn búi yfir sé til fyrirmyndar. Þá sé það mjög jákvætt að hægt verði að stunda námið hvar sem er um landið.  

„Við teljum að það muni koma sér vel fyrir lögreglulið á landsbyggðinni til að manna liðin, sem er töluvert ábótavant í dag,“ segir Snorri. „Þá þarf fólk ekki að flytjast búferlum til að stunda þetta nám. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarin misseri, ár og jafnvel áratugi þá er gríðarlega erfitt fyrir lögregluliðin utan þröngs suðvesturhornsins að ráða til sín lögreglumenn. Það er staðreynd sem hefur verið viðvarandi í mörg ár og vonandi verður þessi möguleiki til þess að hæfir einstaklingar í sinni heimabyggð geti stundað námið í þessu fjarnámi og tekið þá við stöðum hingað og þangað um landið.“

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikill meirihluti stéttarinnar fylgjandi þessu skrefi

Snorri segir það eðlilegt að námið yrði kennt eingöngu við ríkisháskóla þar sem lögreglan er ríkisrekin og því hafi sambandið vonast eftir því að samið yrði við HÍ eða HA. Hann segir þó að eflaust séu skiptar skoðanir um málið á meðal lögreglumanna.

„Við heyrum úrtöluraddir í þessu máli eins og gengur og gerist með öll mál,“ segir Snorri en bendir á að fyrir nokkrum árum hafi verið gerð meistararitgerð í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands þar sem fjallað var sérstaklega um lögreglumenntun á háskólastigi. Sem lið í þeirri ritgerð gerði sá nemi, Guðrún Tinna Ólafsdóttir, sérstaka könnun meðal lögreglumanna um það hvert viðhorf þeirra væri á að koma menntun upp á háskólastig og voru vel ríflega 80% sem voru því fylgjandi. „Miðað við þær upplýsingar er ljóst að mikill meirihluti stéttarinnar er fylgjandi þessu skrefi.“

Þá segir Snorri skrefið haldast í hendur við þá þróun sem hefur verið að eiga sér stað erlendis, og þá ekki síst á hinum Norðurlöndunum. „Þetta er það sem hefur verið að gerast þar og það er ekkert annað en jákvætt um það að segja að þetta skuli gerast hér enda ekkert sem bendir til þess að íslenskt samfélag sé í stórum dráttum frábrugðið öðrum samfélögum á Norðurlöndunum,“ segir hann að lokum.

Frétt mbl.is: Lögreglunámið til Akureyrar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert