Erfiðu biðinni loksins lokið

Lilja Líf handleggsbrotnaði illa á mánudag og þurfti að bíða …
Lilja Líf handleggsbrotnaði illa á mánudag og þurfti að bíða þar til í dag til að komast í aðgerð. ljósmynd/Ari Elíasson

„Þetta gekk bara ljómandi vel eins og maður átti svo sem von á frá fagfólkinu hérna,“ segir Ari Elíasson, faðir níu ára gömlu Lilju Lífar, sem komst loks í aðgerð í dag eftir að hafa handleggsbrotnað á mánudagskvöld. Lilja er langveik og með Downs-heilkenni, sem gerði biðina eftir aðgerðinni enn erfiðari, og segir Ari að verulega þurfi að endurskoða kerfið ef börn eru látin bíða svo lengi eftir læknisþjónustu.

Frétt mbl.is: Áfall að barnið þurfi að bíða svo lengi

Frétt mbl.is: „Óeðlilega langur biðtími“

Eins og mbl.is greindi frá á þriðjudag var Lilja að klifra yfir grindverk á mánudagskvöld þegar hún datt niður og handleggsbrotnaði illa. Þar sem fjölskyldan býr í Reykjanesbæ fóru foreldrar Lilju með hana beint á slysadeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þar sem hún var sett í gips-spelku. Foreldrunum var svo tjáð að þau myndu frá símtal frá Landspítalanum í Fossvogi morguninn eftir og þá yrði bókaður tími fyrir Lilju í aðgerð. Ekki var þó laus tími í aðgerðina fyrr en í morgun, og þurfti Lilja því að bíða í fjóra daga með brotið bein áður en nokkuð var gert í því.

Reyndi að fá aðgerðinni flýtt en fékk ekki hljómgrunn

Ari reyndi að fá aðgerðinni flýtt og mætti til að mynda sjálfur á Landspítalann í Fossvogi á þriðjudag til að greina frá stöðu dóttur sinnar. „Ég vildi vita hvort ég gæti haft einhver áhrif á ferlið en fékk engan hljómgrunn,“ segir hann.

Lilja fór loks inn í aðgerðina um klukkan hálfníu í morgun, og er á vöknunardeild Landspítalans í Fossvogi núna. Plötu var komið fyrir í hendi hennar og fimm skrúfum sem eiga að flýta fyrir bataferlinu að sögn Ara. „Hún var ekki sett í gips heldur vafning svo hún getur notað olnbogann og fingurna mun fyrr en ella og stífnar síður upp,“ segir Ari. Lilja fær væntanlega að fara heim seinnipartinn í dag.

Ari segist strax hafa séð ummerki um beinbrot.
Ari segist strax hafa séð ummerki um beinbrot. ljósmynd/Ari Elíasson

Vissu ekki sögu barnsins

Í samtali við mbl.is á þriðjudag sagði Yngvi Ólafsson, yfirlæknir bæklunarskurðlækninga á Landspítalanum, að biðtíminn sem Lilja lenti í væri óeðlilega langur og skýrðist af því að á sama tíma og deildin væri síður í stakk búin til að taka við sjúklingum vegna breytinga komi allt í einu kúfur. Þá hafi upplýsingaskortur að einhverju leyti orsakað töfina, þar sem læknar hafi ekki vitað sögu barnsins að öllu leyti.

„Mér finnst þetta hljóma eins og samskiptaleysi. Þetta fer í gegnum svo marga að það hafa orðið einhverjar samskiptahömlur þarna á veginum fyrst læknarnir vita þetta ekki,“ segir Ari. „Mér hefði fundist eðlilegt að kennitölunni hennar hefði verið flett upp þar sem það átti að fresta aðgerðinni svo lengi, þar sem skoðað yrði hvort barnið gæti hreinlega beðið svo lengi.“

Ari segir dóttur sína hafa sofið illa síðustu nætur, en hún hafi þó verið nokkuð brött þrátt fyrir að vera kvalin. Lilja sé með mjög háan sársaukaþröskuld og hafi sýnt ótrúlegan dugnað þrátt fyrir að hafa mátt þola margt í gegnum sín veikindi.

Ekki starfsfólki í heilbrigðisgeiranum bjóðandi

Ari segist hafa fengið gríðarleg viðbrögð eftir fjölmiðlaumfjöllun um málið, og hann sé ánægður með að hafa vakið athygli á stöðunni í heilbrigðiskerfinu. „Það er mikil hneykslun á kerfinu og að það skuli ekki vera tekið á svona löguðu strax,“ segir Ari en ítrekar að hann efist ekki um að starfsfólk í heilbrigðiskerfinu leggi sig fram við að sinna öllum sem best. Kerfið þurfi hins vegar að fylgja.

Ari segir dóttur sína ótrúelga duglega þrátt fyrir að hafa …
Ari segir dóttur sína ótrúelga duglega þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum margt. ljósmynd/Ari Elíasson

Fram­kvæmd­ir eru nú í gangi á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi sem or­saka m.a. taf­ir í aðgerðir, en verið er að setja á fót nýja skurðstofu og breyta vökn­un og fleiri deild­um.

„Ég fór með inn í morgun og fylgdi henni inn á skurðstofu alveg þar til hún var svæfð og þessar aðstæður hérna eru alveg skelfilegar,“ segir Ari og bætir við að mikil þrengsli hafi verið á göngum og færa hafi þurft nokkur tæki til á leiðinni til að koma sjúkrarúminu sem Lilja lá í inn á skurðstofuna. „Þetta er ekki starfsfólki í heilbrigðisgeiranum bjóðandi. Það eru auðvitað einhverjar breytingar í gangi en þetta eru rosaleg þrengsli.“

Ekki nóg að fjölga bílaleigubílum og gistináttastöðum

Á þriðjudag sagði Yngvi að ferðamannafjöldi væri ekki eina ástæða aukins álags, en álag hefði verið að aukast smátt og smátt og verið töluvert í allt sumar. „Vissu­lega liggja núna á deild­un­um okk­ar einn til tveir er­lend­ir ferðamenn að jafnaði en voru fyr­ir nokkr­um árum bara einn og einn á stangli yfir sum­arið.“

Ari segir að ráðamenn þjóðarinnar þurfi að vakna, því annars geti ástandið versnað enn frekar. „Það er ekki nóg að fjölga bílaleigubílum og gistináttastöðum, það verður að gera eitthvað í heilbrigðis- og samgöngukerfinu líka með þessari fjölgun,“ segir hann. „Ég vil ekki að börnin okkar í þessu landi lendi í þessu, sama hvort þau eru heilbrigð eða með einhverja kvilla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert