Metur hvort tillaga verður lögð fyrir Alþingi á haustþingi

Lagt er til að vatnasvæði Skjálfandafljóts fari í verndarflokk rammaáætlunar. …
Lagt er til að vatnasvæði Skjálfandafljóts fari í verndarflokk rammaáætlunar. Hugmyndir hafa verið um virkjun fljótsins í Bárðardal, ofan Aldeyjarfoss. Sú virkjun myndi aðallega hafa áhrif á Hrafnabjargafoss. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Umhverfisráðherra mun skoða það hvort unnt verður að leggja þingsályktunartillögu um 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar fram á Alþingi fyrir kosningar.

Sigrún Magnúsdóttir segist í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag meta það að lokinni skoðun á tillögum verkefnisstjórnarinnar hvaða möguleikar séu í stöðunni.

Engar breytingar eru á röðun virkjunarkosta og náttúrusvæða í lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, frá skýrsludrögum sem verið hafa til kynningar hjá almenningi og hagsmunaaðilum í sumar. Stjórnin skilaði tillögunum til ráðherra við sérstaka athöfn í gær.

Lagt er til að átta nýir virkjunarkostir bætist við þá tíu kosti sem fyrir voru í orkunýtingarflokki. Nýju kostirnir eru Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur. Þeir fela í sér uppsett afl í vatnsaflsvirkjunum upp á alls 277 MW, 280 MW í jarðvarmavirkjunum og 100 MW í vindmyllugarði.

Í verndarflokk bætast fjögur landsvæði með tíu virkjunarkostum, það eru Héraðsvötn, Skjálfandafljót, Skaftá og Kjalölduveita í Þjórsá. Fyrir eru sextán virkjunarkostir á landsvæðum í verndarflokki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert