Grunaður um umfangsmikið smygl

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest farbann yfir manni sem grunaður er um aðild að umfangsmiklum og skipulögðum innflutningi fíkniefna hingað til lands. Hann er talinn hafa skipulagt smygl á tæplega 900 grömmum af kókaíni.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi komið hingað til lands þann 16. ágúst sl. með öðrum manni, en töluvert af fíkniefnum fannst í fórum þess síðarnefnda. Sá maður gaf greinargóða lýsingu á hinum manninum við tollverði og sagði hann ferðafélaga sinn og bróður. 

Engin fíkniefni fundust í fórum mannsins sem var í dag dæmdur í farbann, hvorki í farangri né innvortis, en lögregla telur að hann standi að umfangsmikilli og skipulagðri brotastarfsemi sem snúi að innflutningi fíkniefna hingað til lands.

Hylki með fíkniefnum fundust í farangri hins mannsins og var hann handtekinn. Við röntgenrannsókn kom í ljós kom að hann hafði innvortis yfir 30 pakkningar af fíkniefnum. Efnið sem fannst í farangrinum reyndist vera kókaín, alls 869,18 grömm.

Við yfirheyrslu sagði maðurinn að hann hefði komið hingað til lands til að horfa á fótbolta með frænda sínum. Frændi hans hefði átt að koma með flugi degi seinna, 17. ágúst, og þeir hefðu ætlað að hittast á hótelinu sem hann sjálfur hefði bókað. Við nánari athugun hefði lögregla ekki fundið neinn sem hefði komið til landsins á því nafni sem maðurinn gaf upp að væri frændi sinn. Hann hefði heldur ekki vitað hvaða fótboltaleik hann væri að fara á. Þá hefði hann heldur ekki getað gert grein fyrir því hvers vegna hótelbókunin hefði verið tveimur dögum fyrr en hann kom til landsins og þær skýringar sem hann hefði gefið væru mjög ótrúverðugar.

Framburður hins mannsins, sem hafði fíkniefni í fórum sínum, var hins vegar talinn mjög trúverðugur. Hann lýsti því í skýrslutöku að hann væri einungis burðardýr og að hann hefði verið neyddur til fararinnar af manni sem hefði hótað fjölskyldu hans. Lýsti hann því að honum hefði verið sagt að maður myndi fylgja honum alla leið í fluginu og gefa sig fram við hann er þeir væru lentir og komnir í gegnum tollskoðun. 

Lögregla telur manninn sem dæmdur var í farbann í dag hafa verið fylgdarmanninn, og hann hafi verið full meðvitaður um að hinn maðurinn hefði fíkniefni falin í líkama sínum.

Rannsókn lögreglu beinist nú að því að ná utan um þá starfsemi sem lögregla telur að kærði standi að, þ.e. umfangsmikilli og skipulagðri brotastarfsemi er snúi að innflutningi fíkniefna hingað til lands. Staðfesti Hæstiréttur því úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að maðurinn yrði í farbanni til 21. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert