„Algjörlega komið að þolmörkum“

Skóla­stjór­ar grunn­skóla lýsa yfir veru­leg­um áhyggj­um af rekstri grunnskóla.
Skóla­stjór­ar grunn­skóla lýsa yfir veru­leg­um áhyggj­um af rekstri grunnskóla. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við teljum að við séum komin niður í óviðunandi ástand í rekstri grunnskólanna og okkur fannst við knúin til að láta heyra í okkur á þessum tímapunkti,“ segir Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla.

Skólastjórar í grunnskólum Reykjavíkurborgar lýstu yfir verulegum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu grunnskólanna í borginni, í ályktun sem var samþykkt á fundi þeirra í dag. Þar kom fram að niðurskurður hefði leitt til skertrar þjónustu við nemendur. Krefjast þeir þess að kjörnir fulltrúar forgangsraði í þágu barnanna í borginni.

Frétt mbl.is: Rekstur grunnskóla „óviðráðanlegur“

Kristrún Guðmundsdóttir, skólastjóri Hlíðaskóla, tekur undir með Magnúsi og segir stöðuna grafalvarlega. „Það er algjörlega komið að þolmörkum hjá okkur. Það er hægt að láta svona ganga upp að ákveðnu marki en þetta er komið langt út fyrir það,“ segir hún.

Kristrún bætir við að engir peningar séu til neinnar endurnýjunar. Húsgagna- og búnaðarkaup séu strand og viðhald á húsnæði sé í lágmarki. „Það er erfitt að halda uppi góðum móral í skóla þegar ástandið er svona,“ segir hún og bætir við að álagið sé mikið á stjórnendur, og auk þess bitni staðan á nemendum. „Okkur finnst við vera komin inn að beini.“

Auk þess segir hún að vinnuumhverfið verði að vera aðlaðandi svo að nýútskrifuðum kennurum þyki ákjósanlegt að starfa í skólum borgarinnar. „Skólar borgarinnar eiga að vera í fararbroddi varðandi framþróun og rekstur og það er áhyggjuefni ef svo er ekki,“ segir hún.

Hefði fengið 20 milljónum meira í Kópavogi en Reykjavík

Magnús segir það afar brýnt að úthlutunarlíkan Reykjavíkurborgar verði endurskoðað, en stjórnendur grunnskóla vinna fjárhagsáætlun sína út frá því. Magnús segir grunnskóla í öðrum sveitarfélögum marga hverja mun betur setta.

Bendir hann á niðurstöðu tveggja starfshópa, annars vegar á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og hins vegar á vegum borgarstjóra, sem var ætlað að skoða úthlutunarlíkönin. „Þeir komust báðir að því að það væri vitlaust gefið í úthlutunarlíkaninu í Reykjavík,“ segir hann og bætir við að í kjölfarið hafi grunnskólar í Reykjavík verið bornir saman við grunnskóla í öðrum sveitarfélögum og hefði þá sést svart á hvítu að þeir síðarnefndu fengu hlutfallslega meiri peninga.

Magnús nefnir dæmi um 600 barna skóla sem hefði fengið úthlutun sem nam 20 milljónum krónum meira í Kópavogi en hann fékk í Reykjavík. Þá nefnir Kristrún dæmi um tvo kennara sem voru við störf í skólum í Reykjavík en buðust kennarastöður í Kópavogi, og færðu sig báðir um set þar sem þeim buðust mun betri kjör þar.

Geti jafnvel ekki sinnt lögbundinni þjónustu

„Niðurstaðan var sú að það ætti að endurskoða þetta líkan fyrir Reykjavík. Það gekk jafnvel svo langt að starfshópurinn sagði að það yrði gert árið 2016,“ segir Magnús. Skólastjórum hafi hins vegar verið tilkynnt í ár að líkanið yrði látið standa til ársins 2018. „Það þýðir auðvitað að okkur finnst enn vitlaust gefið.“

Þá segir Magnús að skólunum hafi jafnvel verið gert að fara í enn meiri niðurskurð, og auk þess hafi það verið nefnt að líklega þyrfti að fara í enn meiri sparnað á næsta ári. „Okkur finnst það ekki geta gengið lengur að það sé viðurkennd staðreynd að minna sé úthlutað til barna í Reykjavík en í öðrum sveitarfélögum í kringum okkur,“ segir hann.

Afleiðing þessa sé að skólarnir geti ekki sinnt þeirri þjónustu sem þeir vilji sinna, og í sumum tilvikum geti þeir jafnvel ekki sinnt lögbundinni þjónustu. Búnaðarmál séu auk þess í ólestri, sem hafi til að mynda verið ástæða þess að Reykjavíkurborg sé ekki tilbúin að taka upp rafræn samræmd próf.

Var gert að flytja halla á milli ára

Spurður um viðmót borgaryfirvalda segir Magnús að skólastjórnendur hafi fundað með þeim, en ekki fundist eins og sín rödd fengi nægan hljómgrunn. „Það er viðurkennd staðreynd að úthlutunarlíkanið er ekki rétt og svo eru einstaka mál í gangi í borgarkerfinu sem okkur finnst mjög ranglát gagnvart ákveðnum skólum í borginni. Við fáum þau svör að menn séu sammála en svo er þessu samt haldið til streitu,“ segi hann.

Þá nefnir hann dæmi um skóla sem var gert að flytja halla á milli ára, þegar verið var að gera upp mötuneyti í skólanum. Kostnaður sem hafi orðið af því að kaupa aðkeyptan mat væri settur inn í rekstur skólans. „Við höfum ekkert lengur til að taka út hjá okkur og þá förum við bara í það eina sem er eftir hjá okkur sem er að stækka hópa og draga úr þjónustu.“

Þá nefnir hann sérstaklega sérkennslu sem hafi fengið mjög skarðan hlut á síðustu árum, og auk þess skorti fjármagn til að taka nægilega vel á móti nýjum Íslendingum. „Við viljum halda okkur innan þeirra rekstraráætlana sem okkur eru gefnar en við teljum okkur ekki lengur geta sinnt okkar hlutverki sem lögin og okkar rammi setur okkur um starf í skólanum á þann hátt sem við viljum gera miðað við það fjármagn sem okkur er úthlutað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert