Styðja Kristján eftir erfitt ár

Frá brunanum að Melabraut 12 á Seltjarnarnesi fyrr í þessum …
Frá brunanum að Melabraut 12 á Seltjarnarnesi fyrr í þessum mánuði. Ófeigur Lýðsson

Árið hefur verið Seltirningnum Kristjáni Snædal erfitt. Í júlí féll Sólrún Þ. Vilbergsdóttir, eiginkona hans, frá eftir fimm ára baráttu við krabbamein og fyrr í þessum mánuði brann heimili þeirra við Melabraut á Seltjarnarnesi. Þar misstu hann og sonur hans allt innbú sitt ásamt því að hundur þeirra drapst í eldinum.

Kristján fær ekki brunabætur þar sem hjónin misstu húsið á nauðungaruppboði í apríl. Höfðu þau fengið leyfi til að leigja íbúðina í eitt ár eftir uppboðið. Fjárhagsvandræðin komu til vegna veikinda Sólrúnar enda getur krabbameinsmeðferð verið afar kostnaðarsöm. Þá þurfti Kristján að vera töluvert frá vinnu vegna veikinda eiginkonu sinnar.

Jóhanna Ósk Snædal, dóttir Kristjáns, segir í samtali við mbl.is að fjölskyldan hafi fundið fyrir miklum hlýhug eftir brunann. Margir hafi stutt feðgana með fjárframlagi og fá afhenda leiguíbúð í vikunni. „Við erum búin að fá risastórt knús frá þjóðinni,“ segir Jóhanna Ósk.

Frétt mbl.is: Útkall vegna elds

Styrktartónleikar fyrir Kristján og fjölskyldu hans verða haldnir á miðvikudaginn kl. 20. „Við efnum til styrktartónleika fyrir þessa fjölskyldu í von um að sem flestir sjái sér fært að leggja þeim lið, aðstoða þau á þessum erfiða tíma,“ segir á viðburði sem stofnaður hefur verið á Facebook. 

Opnaður hefur verið styrktarreikningur fyrir fjölskylduna. 
Bnr. 301-13-112767
Kt. 2703892369



Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert