Ísland með tvö lið á Ólympíuskákmótinu

Jóhann Hjartarson verður með í ár en hann hefur ekki …
Jóhann Hjartarson verður með í ár en hann hefur ekki gefið kost á sér í mörg ár.

Ólympíuskákmótið 2016 fer fram í Bakú í Aserbaísjan 1.-14. september og sendir Ísland tvær sveitir til leiks.

Ólympíuskákmót er ein stærsta íþróttahátíð heims en um 180 þjóðir taka þátt í mótinu. Þar tefla allir sterkustu skákmenn heims og má þar nefna heimsmeistarann norska Magnus Carlsen, segir í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands.

Evrópumeistarar Rússa er með stigahæsta liðið í opnum flokki en lið þeirra er með 2768 skákstig að meðaltali. Næstir eru Bandaríkjamenn (2761), Ólympíumeistarar Kínverjar (2743) og heimamenn í Aserbaísjan (2715). Armenar taka ekki þátt í Ólympíuskákmótinu nú í mótmælaskyni við þá ákvörðun að halda mótið í Aserbaísjan.

Kínverjar með heimsmeistara kvenna fremsta í flokki eru stigahæstir í kvennaflokki með meðalstigin 2557. Í næstu sætum eru Rússar (2504) og Úkraínukonur (2503).

Lið Íslands í karlaflokki

  1. Hannes Hlífar Stefánsson (2.577), stórmeistari
  2. Hjörvar Steinn Grétarsson (2.556), stórmeistari
  3. Jóhann Hjartarson (2.545), stórmeistari
  4. Guðmundur Kjartansson (2.442), alþjóðlegur meistari
  5. Bragi Þorfinnsson (2.433), alþjóðlegur meistari
    Liðsstjóri: Ingvar Þór Jóhannesson. 

Íslenska liðið er það 44. stigahæsta af 180 liðum.

Landslið Íslands í kvennaflokki:

  1. Lenka Ptácníková (2.136), stórmeistari kvenna
  2. Guðlaug Þorsteinsdóttir (2.051), FIDE-meistari kvenna
  3. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (2.014)
  4. Hrund Hauksdóttir (1.789)
  5. Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1.786)
    Liðsstjóri: Björn Ívar Karlsson.

Íslenska liðið er 63. stigahæsta af 142 liðum.

Umferðir hefjast kl. 11 að íslenskum tíma. Hægt verður að nálgast allar upplýsingar um hvernig hægt verður að fylgjast með íslenska liðinu á www.skak.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert