Meðtók áhyggjur leikskólastjórnenda

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fundar með leikskólastjórnendum í Ráðhúsinu í …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fundar með leikskólastjórnendum í Ráðhúsinu í morgun. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun funda aftur með leikskólastjórnendum eftir 2-3 vikur. Mikill hitafundur var í Ráðhúsinu nú undir hádegi þegar leikskólastjórnendur afhentu borgarstjóra harðorða ályktun þar sem þeir mótmæla niðurskurði í leikskólum borgarinnar og bauð borgarstjóri hluta hópsins á borgarstjóraskrifstofuna til frekari fundarhalda.

Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri á Nóaborg, segir leikskólastjórnendur hafa átt gott spjall við Dag. „Ég held að hann hafi meðtekið áhyggjur okkar og hann sýndi þeim mikinn skilning. Þannig að fyrir fram ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýn,“ segir hún.

„Við lýstum áhyggjum okkar af stöðunni eins og hún blasir við okkur,“ segir Anna Margrét. Rætt hafi verið um að rekstrarfé leikskólanna yrði að vera raunhæft. „Það þyrfti að skoða hvort ekki væri eitthvað óeðlilegt í gangi þegar meirihluti leikskólanna væri rekinn með svo miklum halla.“

Borgarstjóri mun síðan funda með leikskólastjórnendum á ný eftir 2-3 vikur. „Þá ætlar hann að vera búinn að rýna betur í tölurnar með í huga þennan halla fyrir 2015 sem við eigum að taka með okkur.“

Fundur borgarstjóra og leikskólastjórnenda var um 40 mínútna langur og beið stór hluti hópsins á göngum Ráðhússins þann tíma sem hann stóð yfir. Mikill hiti var í þeim sem biðu og áttu þeir m.a. í rökræðum við borgarfulltrúa á meðan beðið var.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert