Geta sagt stopp við bankakerfið

Andrés Jónsson, almannatengill.
Andrés Jónsson, almannatengill.

Íslendingar eru nú í þeirri stöðu að geta ákveðið hvernig þeir vilja hafa bankakerfið í framtíðinni og sagt stopp við því að hrein kapítalísk hugsun og bankakerfið sé allsráðandi í stjórnkerfinu hér á landi. Samt sem áður hefur enginn stjórnmálamaður eða frambjóðandi fyrir þingkosningarnar í haust komið með trúverðuga stefnu í þessum málefnum. Þetta sagði Andrés Jónsson almannatengill í þættinum Vikulokum á Rás 1 í dag.

Spunnust umræður út frá fréttum um bankabónusa síðustu tvær vikurnar og ræddu gestir þáttarins um hvernig þingmenn hefðu brugðist við því. Þar hefði verið einstakt mál þar sem allir þingmenn hefðu verið sammála að takmarka þyrfti slíkar greiðslur og að þær væru ekki heilbrigð í samfélaginu.

Voru gestir þáttarins ósammála um hvað gætu verið eðlilegir kaupaukar og við hvaða tækifæri slíkt væri eðlilegt. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, framkvæmdastýra þingflokks Vinstri grænna, sagði meðal annars að hún teldi ekki eðlilegt að starfsmenn gætu fengið miklar bónusgreiðslur, en Karl Pétur Jónsson almannatengill benti á að hjá mörgum sprotafyrirtækjum væri staðan þannig að þau gætu ekki greitt háar upphæðir í laun til að byrja með og því fengju starfsmenn hlut í fyrirtækinu. Með því gæti hagnaður þeirra seinna meir orðið mikill, eða þegar illa gengur að þeir fái mjög lítið fyrir vinnuna sína.

Þróuðust umræðurnar svo út í hvernig staða mála hefði verið hér fyrir hrun og sagði Andrés stjórnvöld þá hafa leitað til bankamanna og fjárfesta og þeir komið með hugmyndir um hvernig haga ætti löggjöf. Þegar allt hafi fallið hafi þeir svo gagnrýnt að enginn hafi stoppað þá. Sagði Andrés nú vera möguleika, í ljósi eignar ríkisins á stærstum hluta bankakerfisins, til að setja skýrar leikreglur til frambúðar. Enginn frambjóðandi virtist hins vegar hafa trúverðuga stefnu í þeim málum og lítið væri rætt um þetta mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert