Fannst meðvitundalítill í Raufarhólshelli

Ljósmynd úr Raufarhólshelli
Ljósmynd úr Raufarhólshelli Ljósmynd/Ingólfur K. Bjargmundsson

Maður fannst meðvitundarlítill og illa áttaður í Raufarhólshelli í Ölfusi á tíunda tímanum í dag. Björgunarsveitir voru kallaðar út bæði af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að kona sem hafi verið að skoða hellinn hafi gengið fram á manninn og kallað eftir hjálp. Virðist sem maðurinn hafi dottið og fengið höfuðhögg og vankast. Um er að ræða erlendan ferðamann.

Það tók björgunarsveitarfólk um hálfa klukkustund að búa um manninn og bera hann út úr hellinum og í sjúkrabíl sem flutti hinn slasaða á sjúkrahús til aðhlynningar á slysadeild Landspítalans.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var maðurinn um 100 metra inni í hellinum, en fyrst var talið að hann væri mun lengra inni í hellinum. Var hann borinn út á börum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill af þessu tilefni árétta að varhugavert er fyrir fólk að fara einsamalt í hellaskoðunarferðir. Mikilvægt er að nota nauðsynlegan öryggisbúnað og láta vita um ferðir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert