Frekari kröfur um framsal valds

„Við stöndum andspænis þeirri þróun á vettvangi Evrópusambandsins að það …
„Við stöndum andspænis þeirri þróun á vettvangi Evrópusambandsins að það er verið að fela sérstökum stofnunum hlutverk og valdheimildir í æ ríkara mæli. Sú þróun mun væntanlega halda áfram." mbl.is/Hjörtur

Viðbúið er að áframhaldandi aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) þýði að fleiri tilfelli komi upp þar sem gerð verði krafa um að valdheimilir verði framseldar til evrópskra stofnana. Þetta segir Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Vísar hann þar til þingsályktunar sem til afgreiðslu er á Alþingi þess efnis að Ísland gangist undir fjármálaeftirlit Evrópusambandsins eins og til stendur að laga það að EES-samningnum.

Frétt mbl.is: Meira framsal en nokkur dæmi eru um

Skúli vann álitsgerð um viðfangsefnið að beiðni fjármálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að þær gerðir sem til stendur að taka upp í EES-samninginn um evrópskt fjármálaeftirlit rúmist innan þess ramma sem settur er í stjórnarskránni en þar er einkum um að ræða 2. greinin um þrískiptingu ríkisvaldsins. Álitsgerðin byggir á þeirri nálgun sem upphaflega var lögð til grundvallar þegar Ísland undirgekkst samninginn.

Skúli Magnússon, dósent við Háskóla Íslands.
Skúli Magnússon, dósent við Háskóla Íslands.

Björg Thorasensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að hún teldi að ekki yrði lengra haldið í að teygja á stjórnarskránni í þessum efnum en þegar væri orðið og að framsal valdheimilda sem evrópskt fjármálaeftirlit kallaði á samrýmdist því henni ekki. Þessu er Skúli ekki sammála. Hann tekur þó undir að það valdi ákveðnum stjórnskipulegu vanda vegna EES-samningsins að ekki sé fyrir hendi ákvæði í stjórnarskrá sem heimili valdaframsal.

Stofnunum falið valdheimildir í æ ríkari mæli

„Við stöndum andspænis þeirri þróun á vettvangi Evrópusambandsins að það er verið að fela sérstökum stofnunum hlutverk og valdheimildir í æ ríkara mæli. Sú þróun mun væntanlega halda áfram," segir Skúli. Á sama tíma sé meiri áhugi á virku eftirliti og framkvæmd og stofnunum þá jafnvel treyst fyrir því að móta nánari viðmið og framkvæmd innan einhvers ramma, yfirleitt í einhvers konar samvinnu við eftirlitsstjórnvöld aðildarríkjanna. Fleiri slíkar stofnanir séu í farvatninu hjá Evrópusambandinu.

„Þessi þróun hefur þýðingu fyrir Evrópska efnahagassvæðið. Við höfum innleitt efnisréttinn á sviði fjármálaþjónstu og enginn er að tala um annað en að við höldum því áfram. En þá stendur þetta eftirlit eftir. Ég held að það sé algerlega á hreinu að markmiðið með einsleitni, á þessu sviði og öðrum þar sem svipað fyrirkomulag er til staðar, næst ekki nema við föllumst á og innleiðum þessi eftirlitskerfi. Þannig að þetta er krefjandi spurning hversu langt sé hægt að ganga,“ segir hann aðspurður.

Frétt mbl.is: Verður ekki lengra komist

Skúli segir að þar skipti miklu máli hvernig staðið hafi verið að því að aðlaga fjármálaeftirlitið að EES-samningnum. Samið hafi verið um að fella það undir tveggja stoða kerfi samningsins í stað þess að EFTA/EES-ríkin færu undir eftirlit stofnana Evrópusambandsins. Þess í stað sé Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ætlað að fara með eftirlitið gagnvart þeim.

Skúli er ósammála Björgu um að aðkoma ESA sé í raun aðeins formsatriði þar sem stofnunin hafi til að mynda neitunarvald í þessum efnum og fulltrúar EFTA-stoðarinnar komi að gerð þeirra tillagna sem lagðar séu fyrir hana. Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA/EES-ríkin hafi því raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á efni þessara ákvarðana auk þess sem ríkin geti stöðvað ákvörðun ef þau telja hana ógna verulegum efnahagslegum hagsmunum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert