Óhagstætt að þurfa lyf seinni hluta árs

Guðrún Hrund Sigurðardóttir greindist fyrst með krabbamein árið 2009.
Guðrún Hrund Sigurðardóttir greindist fyrst með krabbamein árið 2009. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðrún Hrund Sigurðardóttir fær ekki nýlegt krabbameinslyf sem gæti forðað henni frá erfiðri lyfjameðferð næstu árin vegna þess að fjárheimildir til kaupa á sjúkrahússlyfjum eru búnar. „Það er mjög óhagstætt að þurfa lyf seinni partinn á árinu,“ segir Guðrún sem er ósátt við forgangsröðun stjórnvalda.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að engin lyf sem eru ný á markaði verði innleidd hér á landi það sem eftir lifir árs vegna þess að fjármunir sem ráðstafað var að fjárlögum til þess eru uppurnir nú þegar.

Frétt mbl.is: Ekki til peningar fyrir lyfjum

Sjö ár eru liðin frá því að Guðrún greindist fyrst með brjóstakrabbamein og fór í lyfja- og geislameðferð sem hún segir að hafi gengið vel. Hún greindist hins vegar með æxli í lífhimnu fyrir tveimur árum og aftur í byrjun þessa árs. Lyfjameðferðin gegn því hefur sömuleiðis gengið vel og segir Guðrún að æxlin hafi horfið.

„Síðan vildi læknirinn minn að ég færi í kjölfar lyfjameðferðarinnar á lyf í töfluformi sem er nýtt og hefur gefið góðan árangur á Norðurlöndum. Því var hafnað af lyfjagreiðslunefnd vegna þess að það rúmast ekki innan fjárlaga,“ segir Guðrún.

Gæti losnað við lyfjameðferð í 2-3 ár

Upphaflega tók lyfjagreiðslunefnd, sem ákveður greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í lyfjum, umsóknina um lyfið fyrir í júní og segir Guðrún að höfnun hafi borist í júlí. Hún hafi hins vegar verið án skýringa og því hafi hún óskað eftir skriflegum rökstuðningi. Hann barst í ágúst og var á þá leið að lyfið rúmaðist ekki innan fjárlaga þessa árs. 

„Ef ég hefði verið greind aðeins fyrr og hefði þurft lyfið fyrr á árinu, til dæmis febrúar-mars, hefði ég fengið afgreiðslu. Peningarnir eru bara búnir. Það er mjög óhagstætt að þurfa lyf seinni part ársins,“ segir Guðrún.

Lyfið nefnist Lynparza og segir Guðrún að reynslan af Norðurlöndunum gefi vonir um að það gæti komið henni undan því að þurfa að gangast undir lyfjameðferð í allt að tvö til þrjú ár.

„Þetta hefur haldið sjúkdómnum niðri án þess að þurfa að fara í lyfjameðferð. Þær eru bæði dýrar fyrir spítalann og erfiðar fyrir sjúklinginn. Maður vill allt gera til að forðast það,“ segir hún.

Peningarnir til en forgangsröðunin röng

Guðrún er afar ósátt og gagnrýnir harðlega forgangsröðun stjórnvalda þegar kemur að fjárveitingum.

„Það var bara í gær síðast sem var frétt á vef innanríkisráðuneytisins um að það eigi að veita aukafjárveitingu upp á milljarð í að fækka einbreiðum brúm sem er náttúrulega þarft verkefni en það sýnir bara að það eru til peningar. Það er bara spurning um hvar á að setja þá. Á undanförnum fimm árum hefur einn látist í slysi við einbreiða brú eftir því sem ég kemst næst en á sama tíma hafa 2.500 manns látist úr krabbameini. Viljum við virkilega hafa þannig samfélag að það séu bara ekki til peningar fyrir lyfjum þegar það eru 3-4 mánuðir eftir af árinu. Þetta er bara spurning um forgangsröðun,“ segir Guðrún.

Hún bendir á að þetta sé mál sem snertir alla því hver sem er geti lent í því að veikjast. Fjöldi fólks, bæði krabbameins- og gigtarsjúklingar, sé í sömu stöðu. Fáránlegt sé að fólk þurfi að líða fyrir það hvenær það veikist. 

„Þá viljum við ekki lifa við það að það skipti máli hvenær á árinu þú greinist eða þú þarft á lyfi að halda,“ segir Guðrún.

Þar sem Guðrún fær ekki lyfið stefnir allt í að hún þurfi að gangast undir aðra dýra og erfiða lyfjameðferð í byrjun næsta árs.

„Ég vona svo sannarlega að eitthvað gerist í þessum málum og ég fái tækifæri til að prófa þetta nýja lyf,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert