Hefur „legið í loftinu frá upphafi“

Grétar Þór segir Sigurð Inga Jóhannsson hafa höndlað hlutverk forsætisráðherra …
Grétar Þór segir Sigurð Inga Jóhannsson hafa höndlað hlutverk forsætisráðherra betur en margir áttu von á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í  stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir þá ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, til formennsku í Framsóknarflokknum ekki koma á óvart. „Ég held að þetta hafi einhvern veginn legið í loftinu frá upphafi,“ segir hann.

„Sigmundur Davíð hefur verið í vandræðum með sín mál þó hann hafi reynt að hrinda þessu af sér ítrekað, eins og í kosningasjónvarpinu í gær,“  segir Grétar Þór. Þá hafi Sigurður Ingi fengið margar áskoranir um að bjóða sig fram.

Frétt mbl.is: Sigmundur „ekkert hrópandi kátur“

 „Sigurði Inga hefur á margan hátt tekist ágætlega upp sem forsætisráðherra,“ segir hann. Hann hafi e.t.v. ekki verið maður sem margir hafi séð fyrir sér sem arftaka Sigmundar Davíðs áður en hann tók við embætti forsætisráðherra í vor. „Hann hefur hins vegar komið á óvart og hefur höndlað þetta nýja hlutverk miklu betur en margir áttu von á.  Hann hefur, að ég held, unnið sér virðingu og traust í eigin flokki og raunar út fyrir flokkinn. Þannig að það þarf ekki að koma á óvart að hann hafi að endingu tekið þessa ákvörðun.“

Útilokar flokkinn nánast frá stjórnarsamstarfi verði Sigmundur kosinn

Spurður hvort hann telji harðan slag um formannsembættið verða á milli þeirra Sigmundar Davíðs og Sigurðar Inga á flokksþingi Framsóknarflokksins 1. og 2. október, segir hann erfitt að gera sér grein fyrir því.

Frétt mbl.is: Sigurður Ingi ætlar í formanninn

„Sigmundur Davíð vann að vísu ágætan sigur í eigin kjördæmi,en þar var enginn mjög sterkur frambjóðandi á móti honum. Þá höfum við séð það áður að Norðausturkjördæmið virðist ekki endurspegla viðhorfin í flokknum í öllum öðrum kjördæmum.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, …
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir ákvörðun Sigurðar Inga ekki koma á óvart. mbl.is

Grétar Þór telur formannsslaginn ekki endilega þurfa að veikja eða styrkja flokkinn. „Þetta þarf ekki að hafa nein sérstök áhrif á flokkinn,“ segir hann. „Ég hef sagt það áður, að ég held að flokkurinn eigi talsvert meiri möguleika á að koma til greina í ríkisstjórnarsamstarfi með Sigurð Inga í formennsku heldur en Sigmund Davíð.“ Hljóti Sigmundur Davíð áframhaldandi kosningu sem formaður útiloki það nánast flokkinn frá ríkisstjórnarsamstarfi á næsta kjörtímabili að sínu mati.  

Spurður hvort hann telji að formannsumræðurnar á RÚV í gær kunni að hafa haft áhrif á ákvörðun Sigurðar Inga, segist Grétar Þór aðeins hafa séð hluta þáttarins. „En eins og Sigmundur opnaði, þá held ég að það sé alveg hugsanlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert