Sprengjuflugvél flaug undir íslenskri þotu

Rússnesk sprengiflugvél af gerðinni Tupolev Tu-22M3 lætur sprengjum rigna yfir …
Rússnesk sprengiflugvél af gerðinni Tupolev Tu-22M3 lætur sprengjum rigna yfir Sýrlandi. AFP

Langdrægar, rússneskar sprengjuflugvélar flugu beint undir íslenska farþegaþotu sem var á leið frá Keflavík til Stokkhólms sl. fimmtudag.

Talið er að vélarnar séu af gerðinni Tupolev Tu-22M, en slíkar vélar geta borið kjarnorkuvopn og ferðast yfir hljóðhraða. Atvikið gerðist á íslenska flugstjórnarsvæðinu skammt frá norska flugstjórnarsvæðinu og höfðu rússnesku vélarnar slökkt á staðsetningarbúnaði, tilkynntu ekki um ferðir sínar eða létu vita af sér.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fylgdist Atlantshafsbandalagið (NATO) með ferðum vélanna, sem flugu langleiðina til Spánar, þar sem þeim var snúið við og flogið aftur norður til Rússlands.

Þegar rússnesku vélarnar voru 55 mílur frá íslensku farþegavélinni hafði Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík samband við flugstjóra íslensku farþegaþotunnar og tilkynnti um ferðir tveggja óauðkenndra véla. Ekki var unnt að segja til um hæð rússnesku vélanna, þar sem slökkt var á staðsetningarbúnaði þeirra.

Flugstjóri íslensku vélarinnar segir í samtali við Morgunblaðið að skömmu eftir að Flugstjórnarmiðstöðin hafði fyrst samband hafi verið haft samband að nýju. Þá voru vélarnar aðeins 15 mílur frá farþegaþotunni og héldu áfram að nálgast.

Árekstrarvari nemur ekki

„Þá fer maður að kíkja út um gluggann,“ segir hann. „Innan mjög skamms tíma sé ég tvær rússneskar sprengjuflugvélar í formation-flugi.“

Vélarnar flugu talsvert fyrir neðan íslensku farþegaþotuna, á að giska sex til átta þúsund fetum neðar. Hann segir athæfið mikinn háskaleik. „Þeir kjósa að slökkva á öllum sínum radarsendingum, sem verður til þess að árekstrarvari okkar virkar ekki. Hann nemur ekki þessar flugvélar,“ segir flugstjórinn. „Ef þeim verður á við að halda aðskilnaði frá okkur er ekkert hjá okkur sem býr til einhverja viðvörun.“ Eins bendir flugstjórinn á að hvíldartími flugmanna á þotum sem þessum sé lítill, sem sé hættulegt.

„Þetta er að byrja aftur og aukast mikið,“ segir flugstjórinn um athæfi Rússa og rifjar upp ástandið í kalda stríðinu. „Það er enginn vafi á því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert