Laganemar veita fría lögfræðiaðstoð

Ingibjörg Ruth Gulin og Áslaug Björk Ingólfsdóttir eru framkvæmdastjórar lögfræðiaðstoðarinnar …
Ingibjörg Ruth Gulin og Áslaug Björk Ingólfsdóttir eru framkvæmdastjórar lögfræðiaðstoðarinnar í ár. Mynd/aðsend

Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, býður almenningi endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð í gegnum síma á fimmtudagskvöldum. Laganemar, ásamt reyndum lögmönnum, veita aðstoð og svara fyrirspurnum almennings um öll svið lögfræðinnar að því er fram kemur í tilkynningu frá framkvæmdastjóra lögfræðiaðstoðarinnar.

„Þetta verður í allan vetur, fram að prófum í desember og svo byrjum við aftur í janúar,“ segir Áslaug Björk Ingólfsdóttir, annar framkvæmdastjóra verkefnisins í ár, í samtali við mbl.is.

Áslaug segir misjafnt hversu margir hringja á hverju kvöldi en telur að um 100 manns nýti sér þjónustuna hverja önn. Yfirleitt verða fjórir meistaranemar og einn til tveir nemar í grunnámi við símann og lögmaður ávallt innan handar. Þjónustan verður í boði fimmtudagskvöldum milli 19:30 og 22:00 í síma 551-1012.

Í tilkynningunni segir að heimildir séu um að laganemar hafi boðið lögfræðiaðstoð í einhverju formi á árunum 1933-1935 en aðstoðin hefur verið starfrækt í núverandi formi frá 1981.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert