Orðið æstari með árunum

Guðbjörg umvafin ýmsum hlutum sem tengjast Rolling Stones, m.a. fyrstu …
Guðbjörg umvafin ýmsum hlutum sem tengjast Rolling Stones, m.a. fyrstu plötunni sem hún eignaðist. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

„Hverjir tónleikar eru mikil veisla og mig hungrar alltaf í að fara aftur og aftur,“ segir Guðbjörg Ögmundsdóttir, Rolling Stones-aðdáandi. Guðbjörg hefur farið á 18 tónleika með hljómsveitinni yfir ævina, þá fyrstu árið 1969, þann 5. júní í Hyde Park í London.

Guðbjörg man vel þegar hún heyrði lag með The Rolling Stones fyrst, það var árið 1964 þegar hún var 13 ára og hana minnir að lagið hafi verið „I Wanna Be Your Man“. „Það heillaði mig strax. Ég er frá Vestmannaeyjum, Kanaútvarpið náðist ekki vel þar, svo við hlustuðum á bresku stöðvarnar og þar heyrði ég þessa músík fyrst og keypti síðan fyrstu Stones-plötuna mína stuttu síðar.“ Síðan þá hefur hún keypt allt sem Rolling Stones hefur gefið út. Áður en hún heillaðist af Stones hlustaði hún á Bítlana og á allar þeirra plötur líka. En Stones höfðu betur en Bítlarnir.

Stones og The Who sama dag

„Mínir fyrstu Stones-tónleikar 1969 voru haldnir tveimur dögum eftir að Brian Jones lést. Þeir voru frá hádegi og fram að kvöldmat en um kvöldið fór ég svo á tónleika The Who og Chuck Berry í Albert Hall. Svo þessi dagur var ansi magnaður. Ég skrifaði ritgerð um hann sem var gefin út í bókinni You had to be there; The Rolling Stones live 1962-69,“ segir Guðbjörg, sem heldur næstmest upp á The Who.

Hún komst á tvenna tónleika með Stones í viðbót árið 1969. Ári síðar flutti hún heim og tók tuttugu ára pásu tónleikum. En síðan þá hefur hún farið tvisvar árið 1990, einu sinni 1995, 1998, 2003, 2005, fimm sinnum árið 2006, einu sinni 2012, tvisvar 2013 í Hyde Park og einu sinni 2014 í Berlín.

„Ég hef orðið æstari með árunum,“ segir Guðbjörg og hlær. „Þeir verða líka betri í hvert skipti sem ég heyri í þeim á tónleikum.“

Í ár fór hún á Rolling Stones-sýningu í Saatchi gallerínu í London. En eru einhverjir tónleikar á dagskrá hjá henni? „Ég stefni bara á Ísland á næsta ári. Það er orðrómur um það en þeir fara í Evróputúr næsta sumar. Í tilefni af sýningunni voru tekin viðtöl við þá alla og þar er Ronnie Wood spurður hvort það sé einhver staður eftir á jörðinni sem þeir eigi eftir að spila á sem hann langi að koma til, þá sagði hann skýrt og greinilega „Yes, Reykjavik Iceland“,“ segir Guðbjörg.

Hippi. Guðbjörg á leið á Stones í Hyde Park 1969
Hippi. Guðbjörg á leið á Stones í Hyde Park 1969
Guðbjörg á tónleikum með vinkonum.
Guðbjörg á tónleikum með vinkonum.
Guðbjörg, önnur frá vinstri, á Forty Licks Stones-tónleikunum í Hörpu …
Guðbjörg, önnur frá vinstri, á Forty Licks Stones-tónleikunum í Hörpu um síðustu helgi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert