Tvö innbrot í heimahús í Reykjavík í dag

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í dag en samkvæmt dagbók lögreglu frá klukkan ellefu í dag hefur lögregla sinnt fimm málum á höfuðborgarsvæðinu er tengjast þjófnaði, þar af tvö innbrot í heimahús.

Verslunarstarfsmaður elti þjófinn

Um klukkan hálftvö í dag var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna hnupls úr áfengisverslun í hverfi og stuttu síðar var einnig kallað eftir aðstoð lögreglu vegna innbrots í heimahús. Hafði þar einhverjum verðmætum verið stolið og hefur lögregla málið í rannsókn. Þá var einnig óskað eftir aðstoð lögreglu vegna annars innbrots í heimahús í Grafarvogi.

Þá var lögregla kölluð til vegna hnupls úr stórmarkaði í hverfi 103 og litlu síðar vegna hnupls úr fataverslun í miðborg Reykjavíkur. Hafði þjófurinn reynt að stinga af af vettvangi en starfsmaður verslunarinnar veitti þjófinum eftirför og var hann handtekinn í kjölfarið og fluttur á lögreglustöð til viðtals.

Eldur í leiktækjum við skóla

Lögregla og sjúkralið voru kölluð út vegna umferðarslyss við Stekkjarbakka en þar hafði vespu verið ekið í veg fyrir fólksbifreið. Ökumaður vespunnar og farþegi sem á henni var hlutu minni háttar meiðsl og einhverjar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Þá var tilkynnt um eld í leiktækjum við skóla. Tókst að slökkva eldinn en nokkurt tjón varð á leiktækjunum.

Um klukkan þrjú var karlmaður stöðvaður á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg grunaður um ölvun við akstur. Maðurinn var talsvert ölvaður og þurftu lögreglumenn á vettvangi að styðja hann út úr bifreiðinni og yfir í lögreglubíl. Var hann fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku og var frjáls ferða sinna að henni lokinni.

Fall byggingarkranans til rannsóknar

Líkt og fjallað hefur verið um í dag barst lögreglu tilkynningu um byggingarkrana sem fallið hafði niður í Tryggvagötu. Í dagbók lögreglu segir að ekki hafi verið talið að slys væru á fólki en sjúkrabifreiðar voru þó sendar á vettvang ásamt lögreglu. Málið er í rannsókn hjá lögreglu í samráði við Vinnueftirlitið og Mannvirkjastofnun.

Frétt mbl.is: „Við vorum í algjöru sjokki“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert