Fylgjast „gríðarlega vel“ með Kötlu

Sólheimajökull er vinsæll áfangastaður hjá ferðamönnum. Benedikt segir leiðsögumenn hafa …
Sólheimajökull er vinsæll áfangastaður hjá ferðamönnum. Benedikt segir leiðsögumenn hafa áhyggjur af þeim sem eru þar á eigin vegum og gera sér mögulega ekki grein fyrir hættunni.

Benedikt Bragason, sem rekur ferðaþjónustuna Arcanum frá Ytri Sólheimum, sem m.a. býður upp á ferðir á  Mýrdals- og Sólheimajökul, segir fyrirtækið fylgjast vel með hræringunum í Kötlu. Gjósi Katla þá hafa íbúar og ferðamenn skamman tíma til að koma sér á brott . Í byrjun eldgoss er jafnan ekki hægt að segja fyrir um hvar jökulhlaupið mun koma undan jökli, en Sólheimasandur þar sem Arcanum er með höfuðstöðvar sínar er ein mögulegra jökulhlaupsleiða.

 „Við erum að fylgjast gríðarlega vel með og erum búin að gera undanfarnar vikur, allt frá því okkur fannst þetta ekki vera orðin eðlileg hegðun í Kötlu,“ segir Benedikt. Í kjölfarið hefur verið farið vandlega yfir öryggisáætlanir fyrirtækisins. „Við höfum haldið æfingar með okkar starfsfólki og erum algjörlega að reyna að vera undir það búin að eitthvað gerist.“

Fjarskiptabúnaður er því yfirfarinn reglulega, jarðskjálftavefur Veðurstofunnar er stöðugt opinn og brýnt er fyrir leiðsögumönnum að vera með kveikt á fjarskiptabúnaði og hafa hann í hæstu stillingu.

Í stöðugu sambandi við leiðsögumenn

 Benedikt hefur verið með ferðaþjónustu á Sólheimasandi í 20 ár og segir þetta því ekki vera í fyrsta skipti sem hann býr sig undir gos eða jökulhlaup. „Ég man sérstaklega eftir árunum 2001 og 2002, þá var meiri órói en nú er búinn að vera og þá vorum við mikið á tánum.“

Hann segir taka mislangan tíma að rýma starfsstöðvar fyrirtækisins og sömuleiðis sé viðbragðsáætlunin mislöng eftir því hvort óvissustigi hafi verið lýst yfir eða hvort gos sé hafið. „Við erum ekki nema fimm mínútur að rýma hér í höfuðstöðvunum á Ytri Sólheimum.“ Þá séu þeir sem staddir eru uppi á fjalli ekki endilega í mestri hættu. „Þær ferðir sem eru upp á Mýrdalsjökul og á því svæði hérna fyrir ofan okkur eru mjög öruggar gagnvart flóðahættunni, en svo er líka öskufall og annað sem menn geta lent í veseni með. Við horfum að sjálfsögðu til þess líka og erum í stöðugu sambandi við leiðsögumennina.“

Benedikt Bragason eigandi Arcanum segir fyrirtækið hafa verið með æfingar …
Benedikt Bragason eigandi Arcanum segir fyrirtækið hafa verið með æfingar með starfsfólki vegna mögulegs Kötlugoss. mbl.is/Jónas Erlendsson

 Benedikt segir þá sem eru uppi í fjalli ef gos hefst hafa tíma til að koma sér niður á láglendið þar sem þeir eigi að bíða eftir aðstoð. Þeir eigi hins vegar ekki að fara niður á láglendið því þar verði aðstæður erfiðari. „Verði menn hins vegar varir við að það sé farin að falla aska og byrgjast sýn á leiðinni þá eiga þeir að stoppa og bíða.“ Hann ítrekar að stundum sé betra að bíða en halda ferðinni áfram. „Það er í lagi að það sé öskufall í kring, við höfum séð það.“

Óþekkt stærð hve langan tíma tekur að hjálpa öðrum

Arcanum er  hinsvegar ekki með neinar ferðir inn í Kötlu-öskju þessa dagana. „Þannig að við stýrum þessu þannig að við séum ekki að taka óþarfa áhættu,“  segir hann.

Margir vinsælir áfangastaðir ferðamanna eru á svæðinu á og í kringum Mýrdals- og Sólheimajökul og  nefnir Benedikt sérstaklega að Sólheimajökul séu núna mjög vinsæll hjá ferðamönnum.

„Allir ferðamennirnir sem eru þar á eigin vegum og gera sér mögulega ekki grein fyrir hættunni,  eru í raun meira áhyggjuefni hjá okkur. Leiðsögumennirnir okkar velta því m.a. fyrir sér hvað lengi þeir verði að hjálpa ferðamönnum sem eru hér á eigin vegum. Ef þeir væru bara að hugsa um sig og sinn hóp, þá eru þeir mjög undir það búnir, en það er óþekkt stærð hversu langan tíma það taki að hjálpa öðrum.“

Katla stjórnar leynt og ljóst

Benedikt segir alla ferðamenn sem fari í ferðir með Arcanum fá sérstaka fræðslu um Kötlu í upphafi ferðar og svo hafi það verið öll árin. „Það er allt útskýrt fyrir fólki,“ segir hann og kveðst ekki minnast þess að neinn hafi hætt við að fara í ferð eftir að hafa fengið upplýsingarnar. „En svona tvisvar á ári þá verður einhver hræddur þegar farið er að útskýra þetta fyrir fólki.“

Hans segir Kötlu líka óneitanlega móta líf og starf fólksins í sveitinni. „Við vitum að hún getur verið skæð og líf okkar mótast aðeins af því, okkar hönnun, skipulag og ýmislegt á húsum og í ferðum byggir á því að við vitum af Kötlu gömlu, þannig að hún stjórnar okkur leynt og ljóst.“

Katla bjóði hins vegar líka upp á mikinn fróðleik sem gaman sé að deila með ferðamönnum þó hún sé vissulega nágranni sem bera þurfi óttablandna virðingu fyrir.

„Katla er líka mjög forvitnilegur nágranni og þetta gefur okkur í ferðunum marga möguleika á áhugaverðum frásögnum. Við höfum líka, einmitt út af Kötlu, fengið mikið af vísindamönnum í ferðir með okkur. Við reynum líka að læra af þeim og erum búin að fá gríðarlega mikla fræðslu og fróðleik frá þessum vísindamönnum sem hefur hjálpað okkur í ferðunum, ekki bara vegna Kötlu heldur líka vegna annarra svæða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert