Segja stefna í glapræði

Legudeild sjúkdóma á Landspítalanum.
Legudeild sjúkdóma á Landspítalanum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Stjórn Félags nýrnasjúkra skorar á Sjúkratryggingar Íslands að draga til baka uppsögn á samningi við Landspítalann um ígræðslu nýrna frá lifandi gjöfum. Óttast félagið að með uppsögninni stefni í algjört glapræði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn félagsins.

Vísar félagið í tilkynningunni til fréttar RÚV frá því í gær þar sem greint var frá uppsögninni. Þar hafi komið fram að Sjúkratryggingar Íslands hafi sagt upp samningi við Landspítala-háskólasjúkrahús um ígræðslu nýrna frá lifandi gjöfum en stofnunin meti það svo að ódýrara sé að senda sjúklinga til Gautaborgar í slíka aðgerð.

„Fréttin var óvænt og vakti mjög sterk viðbrögð og ótta ekki síst hjá þeim sem nú eru í undirbúningi fyrir aðgerð í janúar. Aðgerðir sem nú eru í algjöru uppnámi,“ segir í tilkynningunni.

Draga réttmæti í efa

Í bréfi frá Sjúkratryggingum sem greint var frá í frétt RÚV í gær segir að stofnunin meti kostnað við ígræðslu nýrna frá lifandi gjöfum rúmlega 70% hærri kostnað við að senda sjúklinga á Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg.

Dregur stjórn Félags nýrnasjúkra í efa að það sé rétt og telur augljóst að ekki séu allir þættir teknir til greina. Litið sé fram hjá aðstöðu og líðan sjúklingsins, nýragjafans og annarra aðstandenda. 

Þá telur félagið að yfir áratugar reynsla af slíkum aðgerðum hér á landi sé dýrmæt fyrir bæði Landspítalann og landsmenn alla. Þessi boðaða breyting komi því eins og þruma úr heiðskýru lofti. Læknar þurfi stöðugt að halda við þekkingu sinni og reynslu en sá þáttur er nýrnasjúkum afar mikilvægur.

Þarf á stuðningi ástvina að halda

Sjúklingur og nýrnagjafi fara í gegnum miklar rannsóknir áður en mögulegt er að aðgerðinni kemur. Þessar rannsóknir eru gerðar hér á landi, hvort sem aðgerðin sjálf fer fram hérlendis eða utanlands, en sama gildir um alla eftirfylgni að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þá þurfi veikt fólk á stuðningi ástvina sinna að halda en slíkur stuðningur sé ákaflega takmarkaður ef aðgerðin fer fram erlendis auk þess sem mikið veikt og fólk sem nýkomið er úr stórum aðgerðum á erfitt með ferðalög.

Skorar því félagið á Sjúkratryggingar Íslands að draga uppsögnina til baka og semja um áframhaldandi nýraígræðslur frá lifandi gjöfum hér að landi. Jafnframt skuli sá samningur vera raunhæfur þannig að hann uppfylli þarfir og framkvæma megi hann með sóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert