Uppræti dauða lagabókstafi

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Dauðir lagabókstafir eru hættulegir í réttarríki og ógn við rétt borgaranna, að mati Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Í umræðum á Alþingi í dag benti hann á að sex ára fangelsisrefsing liggi við framleiðslu á áfengi til einkanota sem þó þyki ekki hneykslanleg í samfélaginu.

Helgi Hrafn sagði að dauðir lagabókstafir væru frekar algengir í íslenskum lögum. Þannig hafi meira að segja 14. grein stjórnarskrárinnar um málskotsrétt forseta verið talinn dauður bókstafur þar til hún var nýtt.

Í áfengislögum væri einn slíkur dauður bókstafur sem bannar framleiðslu á áfengi til einkanota. Þrátt fyrir það væri slík framleiðsla algeng og fólk reyndi ekki að fela það. Til væri félagsskapur um heimabruggun, Fágun, sem stæði jafnvel fyrir opinberum viðburðum sem fjölmiðlar fjölluðu um og hafi sent fulltrúa á fund þingnefnda.

„Það er mjög greinilegt að framleiðsla á áfengi til einkaneyslu er ekki talin hneykslanleg í samfélaginu og það er ekkert ákall um að framfylgja þessum lögum. Þrátt fyrir það er refsiramminn sex ár,“ sagði Helgi Hrafn.

Ef yfirvöld færu allt í einu að framfylgja lögunum væri óljóst hvað yrði úr.

„Ég legg til að þetta sé ógn við rétt borgaranna. Ég legg til að þetta sé hættulegt í réttarríki sem vill að borgarinn sé upplýstur um hvað megi gera og hvað hann megi ekki gera,“ sagði þingmaðurinn sem óskaði eftir því að gerð yrði gangskör að því að uppræta dauða lagabókstafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert