Ráðuneytið treysti Logos með Bakkalínur

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra. mbl.is/Golli

Atvinnuvegaráðuneytið treysti lögmannsstofunni Logos til að vinna lögfræðiálit um lögmæti lagasetningar um raflínur til Bakka faglega án þess að láta fyrri verkefni fyrir Landsnet hafa áhrif á það. Í skriflegu svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra við fyrirspurn Mbl.is kemur fram að lagasetningin hafi ekki verið lögð fram til að tryggja hagsmuni Landsnets.

Harðar deilur hafa staðið um lagningu raflína til stóriðju á Bakka. Eftir að úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum stöðvaði framkvæmdir við raflínurnar á meðan hún tekur afstöðu til kæru Landverndar á framkvæmdaleyfi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp á Alþingi um að heimila framkvæmdirnar.

Frétt mbl.is: Gagnrýnir aðkomu Logos að Bakkalínum

Landvernd hefur sagst ætla að kæra lögin til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) verði þau að veruleika en samtökin telja rétt sinn til að andmæla ákvörðun stjórnvalda fyrir dómstólum eða óháðum aðilum að engu hafðan. Einnig hefur því verið haldið fram að lagasetningin standist mögulega ekki stjórnarskrá.

Þegar ráðherrann lagði frumvarpið fram vísaði hann til utanaðkomandi lögfræðiálits Logos um lögmæti lagasetningar um raflínurnar. Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi hins vegar að lögmannsstofan hafi verið fengin til að vinna álitið í ljósi þess að hún hefði áður starfað fyrir Landsnet.

Lögmannsstofan Logos var fengin til að skila lögfræðiáliti um lögmæti …
Lögmannsstofan Logos var fengin til að skila lögfræðiáliti um lögmæti lagasetningar um framkvæmdir við Bakkalínur.

Gæta hagsmuna sveitarfélaganna, ekki Landsnets

Í skriflegu svari við fyrirspurn Mbl.is segir Ragnheiður Elín að Logos sé stærsta lögmannsstofa landsins og hún hafi unnið verkefni fyrir fjölda fyrirtækja og stofnana í landinu, þar á meðal Landsnet. Aðrar lögfræðistofur hafa einnig unnið verkefni fyrir Landsnet.

„Hin lögfræðilega álitsgerð sneri að mati á bæði stjórnskipulegum atriðum og alþjóðarétti. Því þurfti lögmannsstofu með breiða þekkingu og fjölda sérfróðra aðila á sínum snærum til að taka slíkt verkefni að sér. Ráðuneytið treysti LOGOS til að vinna matið með fagmannlegum hætti og láta fyrri verkefni fyrir Landsnet ekki hafa áhrif á hina lögfræðilegu álitsgerð,“ segir í svarinu.

Frétt mbl.is: Bakkalínur kærðar til ESA

Frumvarpið hafi fyrst og fremst verið lagt fram til að gæta hagsmuna sveitarfélaganna þriggja sem hlut eiga að máli og hagsmuna ríkisins að því er varðar efnahagslega og samfélagslega hagsmuni af fyrirhugaðri atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi eystra. Það hafi ekki verið lagt fram til að tryggja hagsmuni Landsnets.

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis lagði til að frumvarpið yrði samþykkt efnislega óbreytt og vísaði því áfram til annarrar umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert