Gagnrýnir aðkomu Logos að Bakkalínum

Frá framkvæmdum við kísilverið á Bakka.
Frá framkvæmdum við kísilverið á Bakka.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi harðlega að lögmannsstofa Landsnets hafi verið fengin til að veita ráðuneyti álit á því hvort lagasetning um raflínur til Bakka sé lögmæt eða ekki. Stjórnarþingmaður sagði passað upp á að störf lögmanna stofunnar sköruðust ekki. 

Hart hefur verið deilt um frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra um að heimila framkvæmdir við raflínur til stóriðju á Bakka þrátt fyrir að úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum hafi stöðvað þær á meðan hún kveður upp úrskurð um kæru Landverndar á framkvæmdunum.

Í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag sagði Björt, sem á sæti í atvinnuveganefnd sem hefur fjallað um frumvarpið, að upp úr krafsinu hafi komið að álit sem ráðherrann kynnti sem óháð og styðji frumvarpið hafi verið unnið af sömu lögmannsstofu og hafi komið fram fyrir hönd Landsnets.

„Það er ekki unnið af umhverfislögfræðingum í akademíunni eða einhverjum óháðum aðilum. Það er unnið af lögfræðingum Landsnets. Lögfræðingar Landsnets, Logos lögfræðistofa, voru fengnir til að vinna álitsgerð um það hvort kæra á hendur fyrirtækinu sem þeir [koma fram fyrir] megi missa sín. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega?“ spurði Björt.

Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi sem Bakki tilheyrir, svaraði því til að fjölmargir lögmenn vinni hjá Logos og þeir vinni fyrir ýmsa aðila.

„Það er sannarlega passað upp á það að það sé ekki verið að blanda saman vinnu einstakra lögmanna og einstakra mála,“ sagði Valgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert