Getur enn valdið miklu tjóni

Cocoa Beach ströndin á Flórída er meðal þeirra staða sem …
Cocoa Beach ströndin á Flórída er meðal þeirra staða sem verður fyrir barðinu á fellibylnum Matthew. AFP

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir ómögulegt að segja til um hvort fellibylurinn Matthew muni ganga á land á Flórída eða nágrannaríkinu Georgíu. Hann er þó þeirrar skoðunar að það fari að draga úr vindstyrknum, en telur Matthew engu að síður enn geta valdið verulegu tjóni.

„Styrkur hans náði hámarki yfir Haíti, en hann er síðan búin að sveiflast fram og til baka og nú í morgun hafði aftur dofnað yfir honum. Þannig að ætli hann sé ekki búin að lifa sitt fegursta og það fari að draga úr honum,“ segir Trausti.

„Hann kemur þó samt til með að valda vandræðum næstu daga og jafnvel næstu vikur,“ bætir hann við og segir rigninguna sem fylgi Matthew enn geta valdið vanda þó að það dragi úr vindstyrknum.

Ofboðslegur vindstyrkur á litlu svæði

Trausti segir fjarlægð Matthew frá landi skipta miklu máli, enda sé þetta ofboðslegur vindstyrkur sem fari yfir lítið svæði. Rigningin nái hins vegar yfir miklu stærra svæði. „Þannig að ef hann helst svona 50-60 km frá landi þá verður miklu minna úr honum, en hann kemur nær.“

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir fjarlægð Matthew frá ströndinni skipta miklu …
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir fjarlægð Matthew frá ströndinni skipta miklu máli. mbl.is/Árni Sæberg

Hreyfing og braut fellibyljarins gagnvart sjávarflóðum skiptir þá ekki síður máli, enda skapi Matthew geysilega flóðahættu ef hann fer nærri ströndinni. Þetta séu aðstæður sem sé erfitt að segja til um fyrirfram og því þurfi að fylgjast stöðugt með flóðahættu.

Mikil hætta á strandrofi

„Einhver ákveðin fjarlægð frá ströndinni er til dæmis óheppileg gagnvart strandrofi. Þá er líka byggð á mörgum rifum út við sjó á Flórída og á slíkir staðir geta hreinlega færst til í miklum veðurofsa,“ segir Trausti og bætir við að byggð leggist einfaldlega í rúst við slíkar aðstæður.

„Þetta er fjölmargir þættir sem er mjög svo erfitt að henda reiður á.“  Hann segir tjón af völdum fellibylja hins vegar sjaldnast liggja fyrir alveg strax, nema litlar skemmdir verði og nefnir sem dæmi þegar fellibylurinn Katrína fór yfir New Orleans árið  2005. „Þá bentu fyrstu fréttir til þess að tjón hefði verið lítið, en nokkru síðar fóru að bera fregnir af umfangi eyðileggingarinnar,“ segir hann. Það sama eigi við nú.

Íbúi borgarinnar Jeremie á Haítí virðir fyrir sér skemmdirnar sem …
Íbúi borgarinnar Jeremie á Haítí virðir fyrir sér skemmdirnar sem Matthew olli. AFP

„Þegar Matthew fór yfir Haítí og Kúbu þá bárust engar fréttir af för hans á meðan hann var þar yfir. Á Kúbu bárust fréttir af tjóninu næsta dag og á Haítí 2-3 dögum eftir að hann var farinn þar yfir. Þá hefur enn lítið frést af tjóni á Bahama þar sem Matthew fór yfir í gær. Hann hefur samt örugglega valdið miklu tjóni þar líka, þó að við fréttum kannski ekki af því fyrr en í dag.“

Slíkt geti einnig átt við á  Flórída. „Talið er að Matthew muni þræða ströndina, því ekki er enn vitað hvort hann eigi eftir að ganga á landi. Það að hann þræði ströndina með þessu hætti þýðir að það er mjög líklegt að einhvers staðar verði mjög mikið tjón, en það er ekki þar með sagt að það verði alls staðar. Við gætum því fengið fréttir í upphafi af því að tjón hafi orðið lítið af því að fréttir berast fyrst frá þeim stöðum sem sleppa hvað best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert