„Ánægður með ójöfnuðinn?“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, steig í pontu á Alþingi, og spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, af hverju hann geti ekki verið hreinskilinn og sagt það beint út að það sé stefna Sjálfstæðisflokksins að ójöfnuður skuli ríkja í þjóðfélaginu og að hann sé ánægður með ójöfnuðinn. 

Þetta sagði Helgi í framhaldi af fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um hvort Bjarni telji ástæðu til að gera breytingar á skattkerfinu til að auka jöfnuð.

Frétt mbl.is: „Stórkostlega jákvæðar fréttir“

Bjarni svaraði því þannig að ummæli Helga bæru vott um að Samfylkingin væri orðin „harðsvíraður vinstri flokkur“.

„Af hverju segið þið það ekki beint út að það má enginn hafa það betra en annar? Við erum ekki slíkur flokkur. Við ömumst ekki við því þótt sumum gangi betur en öðrum. Við viljum sanngjarnt skattkerfi sem tryggir að allir skili sínu,“ sagði Bjarni og tók fram að fólk skili hærra hlutfalli af launum í skatt eftir því sem launin eru hærri.

„Okkar skattatilllögur hafa miðað að því að létta undir með millitekjufólki og lágtekjufólki. Þeir sem eru með meira á milli handanna greiða meira en aðrir.“

Hann nefndi einnig hvort Samfylkingin væri að boða að taka ætti upp eignaskatta.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi svaraði því þannig að auðvitað hefðu einhverjir það betra en aðrir og þannig hefði það alltaf verið. „Spurningin hér er hvort Alþingi og ríkisstjórn beiti sér fyrir því að auka á þann ójöfnuð og láta þá tekjuhærri hafa stærri hluta af kökunni.“

Bætti hann við að auðlegðarskattur hefði getað fylgt höftunum og skilað þannig tugum milljarða í sameiginlega sjóði og dregið úr auknum ójöfnuði.

„Það sem við töldum rétt að gera var að skattar sem höfðu verið kynntir til sögunnar sem tímabundnir skattar myndu renna sitt skeið,“ svaraði Bjarni.

„Við vildum afnema undanþágu fyrir slitabúin. Með því tókum við um 40 milljarða af slitabúum,“ sagði hann og bætti við að skattar hefðu á móti verið færðir frá heimilunum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert