„Stórkostlega jákvæðar fréttir“

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi hvort hann telji ástæður til að gera breytingar á skattkerfinu til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu.

Hún vísaði í frétt Kjarnans um að 44% fjármangstekna á árinu 2015 hafi farið til ríkasta eins prósents landsmanna. Einnig vakti hún athygli á frétt Fréttablaðsins um launaþróun. Þar kemur fram að helmingur allra greiddra launa í fyrra hafi farið til tveggja efstu tekjuhópanna.

Bjarni benti á samanburðarrannsókn OECD á  jöfnuð þar sem Ísland lenti í efsta sæti. Bætti hann við að fjármagnstekjur hefðu aukist hjá þeim sem eru með sparnað, enda hafi uppgangur verið á hlutabréfamörkuðum.

Einnig benti hann á að eignir allra landsmann hefðu aukist um 13 til 20 prósent. „Það eru stórkostlega jákvæðar fréttir. Það eru fréttir um að aukin hagsæld er að skila sér til allra.“

Katrín sagði það rétt að efnahagslegur uppgangur hafi verið í þjóðfélaginu en tók fram að tölurnar sem hún benti á sýni að honum sé ekki skipt með jöfnum hætti.

Bjarni nefndi að ríkisstjórnin hefði beitt sér fyrir skattalækkunum sem hafi sérstaklega skilað sér til millitekjufólks en einnig til lágtekjufólks.

Hann sagðist ekki vita hvað Katrín væri að fara með því að lýsa yfir áhyggjum af því að fjármangstekjur skuli skila sér skila sér til þeirra sem eiga sparnað. Sagði hann ekki rétt að bregðast við því með skattlagningu og að ekki eigi að hafa afskipti af því hvernig fólk nýtir sparifé sitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert