Sendur fram og til baka vegna misskilnings

Hælisleitandinn ræddi við blaðamann fyrir helgi.
Hælisleitandinn ræddi við blaðamann fyrir helgi. mbl.is/Eggert

Íslenska lögreglan fékk misvísandi upplýsingar frá norskum yfirvöldum,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali við mbl.is. Eins og kom fram í síðustu viku var hælisleitandi send­ur til Nor­egs og aft­ur til baka á miðviku­dags­kvöld.

Vegna þess að máli hans var lokið fyr­ir ís­lensk­um stjórn­völd­um var hon­um vísað úr landi. Þá er málið komið í hendur lögreglunnar sem fer fram á flutning. Af óviðráðanlegum orsökum tafðist flutningurinn og vegna þess spurði lögreglan hvort senda þurfti nýja beiðni. Símleiðis fékk lögreglan svör um að hægt væri að koma með manninn. „En þegar þeir koma með hann þá fá þeir þær upplýsingar að fresturinn væri liðinn og þeir þurfi að senda inn nýja beiðni,“ segir Þórhildur.

Íslenska lögreglan fékk þessar upplýsingar frá norsku lögreglunni en síðan var það systurstofnun Útlendingastofnunnar í Noregi sem sagði að senda þyrfti nýja beiðni vegna málsins. Samkvæmt upplýsingum verður maðurinn sendur til Noregs seinna í vikunni.

Maður­inn fædd­ist í Ber­ber-héraði í Norður-Afr­íku. Hann ólst upp án for­eldra, flúði Mar­okkó og sótti um hæli í Nor­egi. Þar var hann í fjög­ur ár en var að lok­um synjað um hæli þar í landi. Þórhildur kvaðst ekki geta svarað fyrir nákvæmlega um þetta mál en almennt þegar menn fái þessa niðurstöðu í sín mál þá sé þeim gefin frestur til að yfirgefa landið.

Þegar einstaklingur fer ekki aftur til heimalands heldur kemur í annað land og óskar eftir hæli þá er málinu ekki lokið hjá norskum yfirvöldum, þá er málið áfram hjá norskum yfirvöldum. Það sem að Norðmennirnir þurfa að gera er að flytja hann til síns heima. Málið er enn á höndum norskra yfirvalda,“ segir Þórhildur.

Ákvörðunin sem tekin var hér á landi grundvallast á Dyflinnar-reglugerðinni. Markmið hennar sé að koma í veg fyrir að hælisleitendur komi til Evrópu, fari frá einu landi til annars og sæki um hæli. „Það gildir eitt í öllum löndunum. Það er akkúrat þetta sem reglugerðin á að hindra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert