Vilja minnast fullveldisins

mbl.is/Hjörtur

Forystumenn stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa lagt fram þingsályktunartillögu um hvernig minn­ast skuli þess að öld verður liðin 1. desember 2018 frá því að íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var stofnað með sambandslögunum 1918.

Fram kemur í ályktuninni að þessa verði minnst með því að kjósa nefnd með fulltrúum allra þingflokka til þess að undirbúa hátíðahöld árið 2018. Nefndin ráði framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir þörfum og eins og fjárveitingar leyfi og starfi árin 2017 og 2018.

Ennfremur verði haldinn hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018 en þann dag öld áður var samningum um fullveldi Íslands lokið. Ríkisstjórninni verður falið að standa fyrir hátíðarhöldum 1. desember 2018 og boða ennfremur til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags Stjórnarráðsreits.

Undirbúningsnefnd verður falið að:

1. láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918;
2. stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðar­innar;
3. stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi;
4. hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku sam­félagi með sambandslögunum árið 1918.

Ennfremur verður ríkisstjórninni falið að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verði fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminja­safns.
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu inn­viða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni. Alþingi ályktar að fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert