Kotra er samspil heppni og hæfni

Hluti landsliðsins, f.v. Guðmundur Gestur Sveinsson, Ingi Tandri Traustason, Gísli …
Hluti landsliðsins, f.v. Guðmundur Gestur Sveinsson, Ingi Tandri Traustason, Gísli Hrafnkelsson þjálfari, Róbert Lagerman og Fjalarr Páll Mánason. Fjarverandi voru er myndin var tekin þeir Hallur Jón Bluhme Sævarsson og Stefán Freyr Guðmundsson. mbl.is/Golli

Í kotru fá allir tækifæri. Þolinmæði, heilbrigð skynsemi og heppni ráða úrslitum að sögn Róberts Lagerman, fyrirliða landsliðs íslenskra kotruspilara. Liðið er á leið á þriðja Evrópumót kotruspilara á Helsingjaeyri í Danmörku, þar sem tuttugu landslið etja kappi.

Kotrusamband Íslands teflir fram sex slyngustu kotruspilurum landsins á Evrópumeistaramót kotruspilara 2016, sem formlega verður sett á Helsingjaeyri í Danmörku í kvöld og stendur í fimm daga. Landsliðið leggur upp í leiðangurinn með þrjú háleit markmið; að komast í fjögurra liða undanúrslit, fá samþykkt að næsta Evrópumót verði haldið á Íslandi og að Íslendingur verði kjörinn framkvæmdastjóri Evrópusambands kotruspilara.

Til starfans býður sig fram fyrirliði landsliðsins, Róbert Lagerman, sem jafnframt er upplýsingafulltrúi og fréttaritari Kotrusambands Íslands.

„Ég flyt glóðvolgar fréttir frá vettvangi á heimasíðunni okkar, www.kotra.is og samhliða á Facebook,“ lofar hann og býst við að félagsmenn og sístækkandi hópur áhugafólks fylgist spenntur með.

„Skráðir félagar eru 150, konur og karlar á ýmsum aldri, þar af um 30 í harðasta kjarnanum. Félagið var formlega stofnað 2009 og er stofnaðili Evrópska kotrusambandsins, sem sett var á laggirnar í Króatíu 2014, þar sem fyrsta EM var haldið sama ár. Í fyrra var mótið svo í Búdapest í Ungverjalandi. Það er heilmikil virkni í kotruheiminum, í rauninni hefur orðið hálfgerð sprengja á heimsvísu síðastliðin tíu ár eða svo, mót og keppni úti um allar jarðir.“

Hin evrópska kotrusaga

Róbert segir Kotrusamband Íslands leggja mikið upp úr því að taka þátt í Evrópumeistaramótinu. „Okkur finnst við sem stofnaðilar eiga svolítið í þessu móti. Við fengum strax mann í stjórn, sem er Bjarni Freyr Kristjánsson, en hann er reyndar að hætta, og eigum að mörgu leyti þátt í að skrifa hina evrópsku kotrusögu; leggja línurnar í kotrulandslagi framtíðarinnar. Og nú er ég kandídat í stól framkvæmdastjóra.“

Róbert upplýsir að líklega etji hann kappi við Svía og Grikki. „Við erum með ýmis tromp í hendi,“ segir hann sposkur. Inntur nánar í hverju þau felist viðurkennir hann að hafa bara tekið svona digurbarkalega til orða.

Tuttugu lönd eru skráð til leiks, að meðaltali sex keppendur frá hverju landi og er fyrirkomulagið með svipuðum hætti og í fyrra og hittifyrra. Við setningarathöfnina í kvöld verður dregið um hverjir spila saman í riðlum. Spurður um óskamótleikara segir Róbert að það sé alltaf voða gaman að vinna keppni við Dani í hverju sem er. Aukinheldur séu þeir sérdeilis sterkir kotruspilarar.

„Við vorum í 5. sæti í Króatíu, grátlega nærri því að komast á verðlaunapall. Í fyrra lentum við í 13. sæti í Búdapest en þá náðum við ekki að stilla upp sterkasta liði okkar. Því er öfugt farið í ár. Við erum með gríðarlega öflugt lið, alveg frá 1. borði til síðasta varamanns. Sterkara getur liðið tæpast orðið,“ segir Róbert.

Kotra fyrir konur og karla

Gísli Hrafnkelsson, landsliðseinvaldur og þjálfari liðsins, hafði skipan kotrulandsliðsins alfarið með höndum. „Hann valdi fimmtán leikmenn í febrúar en fækkaði smám saman niður í sex eftir því hvernig við stóðum okkur á æfingum og mótum. Auk mín eru í liðinu þeir Hallur Jón Bluhme Sævarsson, Stefán Freyr Guðmundsson, Ingi Tandri Traustason, Guðmundur Sveinsson, sem er Íslandsmeistari í kotru 2016, og Fjalarr Páll Mánason. Því miður er engin kona í liðinu, en kotra er þó ein fárra íþróttagreina þar sem keppendum er ekki skipt í kvenna- eða karlaflokk. Í fyrra var til dæmis japönsk kona heimsmeistari,“ segir Róbert.

Þrátt fyrir sterkt lið er ekki á döfinni á næstunni að íslenska kotrulandsliðið keppi á heimsmeistaramóti. „Markmiðið er að taka þátt þegar við verðum orðin fræg og rík. Þátttaka í mótum er dýr og því erfið án styrktaraðila, en fram til þessa höfum við græjað allan kostnað úr eigin vasa. Kotrusamband Íslands er ungt félag sem við reynum að byggja það upp hægt en og örugglega. Ef við lendum í vinningssæti á EM16 fer verðlaunaféð – sem raunar er ekki mjög há upphæð – í frekara uppbyggingarstarf. Við erum meira að spila okkur til skemmtunar og myndum fyrst og fremst líta á sigur sem heiður og einnig mikla lyftistöng fyrir kotru á Íslandi,“ segir hann og nefnir sprengingaráhrif í vinsældum.

Líkindi og hugarreikningur

Sjálfum finnst Róbert, sem í mörg ár var meðal tíu bestu skákmanna á Íslandi, gott að hvíla hugann, spila kotru og kasta teningum. Á árunum áður tefldi hann í landsliðsflokki í skák, keppti tvisvar með landsliðinu og hefur bæði orðið Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari í skák. Hann segir kotru vissulega auðveldari en skák en að sama skapi séu meiri sveiflur í því hver eigi möguleika á að vinna leikinn. „Ef maður kann mannganginn í kotru, sem tekur aðeins tíu mínútur að læra sem og helstu reglur, á maður möguleika gegn hverjum sem er. Og getur líka tapað fyrir hverjum sem er, jafnvel heimsmeistara í íþróttinni. Skákin er öðruvísi hvað þetta varðar. Mér finnst heillandi að maður þarf ekki margra áratuga æfingu til þess að verða góður í spilinu.“

Engu að síður tekur talsverðan tíma að verða virkilega góður kotruspilari. Til dæmis þarf að læra alls konar strategíur, reikna út líkindi og þess háttar. Þótt heppni spili inn í hvernig leikurinn fer og mikið velti á því hvað kemur upp þegar teningnum er kastað segir Róbert ekki spilla fyrir að vera góður í hugarreikningi.

Breiða út boðskapinn

„Menn hafa spilað kotru öldum og árþúsundum saman. Fornir teningar og töflur, sem svipar mjög til þeirra sem notaðar eru í spilinu, hafa fundist í Miðausturlöndum. Þar er kotra hálfgerð þjóðaríþrótt, sem menn spila úti á götu og á kaffihúsum. Hér á landi hefur fólk lengi spilað kotru, sem sumir kalla reyndar backgammon, í heimahúsum og upp á síðkastið mikið á netinu og í snjallsímum. Kotra á tvímælalaust auknum vinsældum að fagna. Við í Kotrusambandi Íslands kappkostum að breiða út boðskapinn með því að standa reglulega fyrir mótum, keppni og fyrirlestrum,“ segir Róbert.

Spurður hvaða eiginleikum góður kotruspilari þurfi að búa yfir svarar hann: „Að vera þolinmóður og búa yfir heilbrigðri skynsemi. Leikurinn sveiflast rosalega og er stundum eins og rússnesk rúlletta. Ef maður er þolinmóður fær maður tækifæri – rétt eins og í lífinu.“

Teningunum kastað

Kotra er tveggja manna tafl, leikið á fjórskiptu borði með 24 oddlaga reiti. Hvor spilari hefur 15 töflur og þeir kasta til skiptis tveimur teningum. Töflunum er leikið í gagnstæðar áttir og markmiðið er að koma þeim í heimahöfn (sex síðustu reitirnir) og leika þeim síðan út af borðinu. Reka má töflu andstæðings til baka með því að fara á reit þar sem hún er ein fyrir en ekki má fara á reit þar sem tvær eða fleiri töflur andstæðings eru.

Kotra þekktist í fornöld í Mesópótamíu og Grikklandi og mósaíkkotruborð hafa m.a. fundist í Pompei á Ítalíu.

Til að hita upp fyrir Evrópumeistaramótið skoraði pressuliðið á landsliðið …
Til að hita upp fyrir Evrópumeistaramótið skoraði pressuliðið á landsliðið í kotru í fyrrakvöld. Landsliðið vann 3:1. mbl.is/Golli
Róbert (þriðji f.h.) segir landsliðið gríðarlega öflugt í ár, alveg …
Róbert (þriðji f.h.) segir landsliðið gríðarlega öflugt í ár, alveg frá fyrsta borði til 1. varamanns. mbl.is/Golli
Kotra er tveggja manna tafl, leikið á fjórskiptu borði með …
Kotra er tveggja manna tafl, leikið á fjórskiptu borði með 24 oddlaga reiti. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert