17 gráður á Vopnafirði og Ólafsfirði

Veðurspá fyrir daginn í dag, eins og hún leit út …
Veðurspá fyrir daginn í dag, eins og hún leit út klukkan níu í morgun. Það dregur úr vindi í dag en má búast við skúrum sunnan- og vestanlands.

Óvenjuhár hiti mældist í nótt á nokkrum stöðum fyrir norðan og norðaustan, m.a. á Vopnafirði þar sem hiti mældist 17,7 stig og Ólafsfirði þar sem hann var 17,3 stig. Ekki er þó hitabylgja hér á ferð heldur segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands, hitann ekki vera óvenjulegan í því veðri sem verið hefur.

„Þessi lægð sem er á Grænlandshafi, leifarnar af fellibylnum Nicole, er að dæla til okkar hlýju lofti lengst suður úr hafi.  Þegar hún fer yfir landið verður svokallaður hnjúkaþeyr og þá hlýnar,“ segir hún og kveður þetta vera ástæðuna fyrir 17 gráðunum.  Hitinn hafi fylgt vindstyrknum í nótt, en nú eftir að það fór að lægja þá hafi aðeins dregið úr hitanum.  

Veðurvefur mbl.is

„Hitinn á Seyðisfirði er t.d. kominn niður í 15 gráður, en hann var um 16 stig fyrr í morgun. Þegar það dregur úr vindinum þá nær hlýja loftið ekki alveg að skila sér.“ Helga segir landsmenn engu að síður eiga von á mildu lofti næstu daga og verður hitinn á bilinu 7-14 stig.

Ekki er því útlit fyrir að frost verði á landinu á fyrsta vetrardag, sem er núna á laugardag, þó að Helga vilji ekki útiloka að hvítna kunni í fjöllum á hálendinu.

„Það verður hlýjast á Norðausturlandi af því að við erum í suðlægum áttum og er raunar útlit fyrir fínasta verður fyrir norðan og norðaustan um helgina.“

Það dregur úr vindi í dag, en á morgun bætir aðeins í aftur og má búast við stífum vindi og rigningu sunnan og vestanlands. Heldur hægara verður um helgina en þó má áfram búast við vætusömu veðri sunnan- og vestanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert