Hæstiréttur þyngdi kynferðisbrotadóm

mbl.is/Þórður

Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Héraðsdómur Vesturlands hafði áður dæmt hann í tveggja ára fangelsi. Maðurinn, Björn Valdimarsson, var ennfremur dæmdur til þess að greiða fórnarlambi sínu tæplega 1,2 milljónir króna í miskabætur og annað eins í málskostnað til réttargæslumanns brotaþola og verjanda síns.

Björn var sakfelldur fyrir að hafa notfært sér ölvun og svefndrunga brotaþola til að hafa við hana samræði. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að hann hafi farið á heimili konunnar ásamt kærasta systur hennar. Konan hafi búið í foreldrahúsum þar sem kærasti systur hennar var einnig til húsa. Þeir hafi farið inn í herbergi konunnar og Björn lagst upp í hjá henni og hinn maðurinn tekið myndir af því. Kærastinn hafi síðan yfirgefið herbergið farið að sofa.

Eftir það hafði Björn samræði við konuna og hélt því fram að það hefði verið með fullum vilja hennar. Konan segist hafa vaknað við það að Björn hafi legið nakinn ofan á henni. Hann hafi kysst hana og hún í fyrstu brugðist vel við því þangað til hún hafi áttað sig á því hvað væri í gangi. Hún hafi þá yfirgefið herbergið og vakið systur sína og greindi henni frá því sem hefði gerst. Systirin fór inn í herbergið þar sem Björn hafi enn verið nakinn.

Systir konunnar skipaði Birni að fara út en við það vaknaði annað heimilisfólk. Hringt var á lögregluna sem kom á staðinn skömmu síðar og handtók hann. Konan sagði Björn hafa nýtt sér svefndrunga sinn og ölvun til þess að nauðga henni. Sjálfur var hann ölvaður samkvæmt dómnum. Björn hélt því fram að konan hefði verið vakandi þegar kærasti systur hennar hafi tekið myndir af þeim saman en kærastinn neitað því. Ekki var því fallist á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert