Verðlaunuðu könnuði jarðar og geims

Geimfarinn Scott Parazynski við verðlaunaafhendinguna í gærkvöldi.
Geimfarinn Scott Parazynski við verðlaunaafhendinguna í gærkvöldi. ljósmynd/Gaukur Hjartarson

Könnuðir jarðar og geimsins voru verðlaunaðir við lok Landkönnunarhátíðar á Húsavík í gærkvöldi. Bandaríski geimfarinn Scott Parazynski hlaut Könnunarverðlaun Leifs Eiríkssonar og indversku systurnar Tashi og Nungshi Malik hlutu verðlaun í flokki ungra landkönnuða.

Könnunarsafnið á Húsavík og Ísafold Travel stóðu fyrir hátíðinni, sem stóð yfir í fjóra daga. Henni lauk í gær þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fór með Parazynski yfir hálendið. Um kvöldið afhenti forsetinn svo geimfaranum verðlaunin.

Parazynski á að baki fimm geimferðir með bandarísku geimskutlunum sálugu og fór hann í sjö geimgöngur í þeim. Alls hefur hann ferðast 37 milljónir kílómetra í geimnum, að því er kemur fram í tilkynningu um verðlaunin. Parazynski, sem er læknir, var meðal annars í áhöfn með John Glenn, fyrsta geimfara Bandaríkjanna, þegar sá síðarnefndi varð elsti geimfarinn árið 1998. Gerði Parazynski ýmsar rannsóknir á Glenn og áhrifum geimferða á svo roskinn geimfara.

Fyrir utan ævintýri sín í geimnum er Parazynski eini geimfarinn sem hefur einnig klifið Everest-fjall. Þá hefur hann unnið ýmis afrek í köfun.

Indversku tvíburasysturnar Tashi og Nungshi Malik hafa náð tindum hæstu …
Indversku tvíburasysturnar Tashi og Nungshi Malik hafa náð tindum hæstu fjalla jarðar og komist á báða pólana. ljósmynd/Gaukur Hjartarson

Malik-tvíburasysturnar eru þær yngstu sem hafa náð hæstu tindum allra heimsálfa og komist á báða póla jarðar, en þær voru 23 ára þegar það tókst.

Í flokki söguverkefna hlaut áhöfn Drekans Haraldar hárfagra frá Noregi verðlaunin og tók sendiherra Noregs við verðlaununum fyrir þeirra hönd. Þá var Chris Burkard, ljósmyndari og ævintýramaður, verðlaunaður, en hann er einn vinsælasti landslagsljósmyndari Instagram með yfir tvær milljónir fylgjenda og sýna margar mynda hans ótrúlegt landslag Íslands.

Hópur nemenda úr Borgarhólsskóla á Húsavík var auk þess verðlaunaður vegna samkeppni sem skólinn og safnið stóðu að í tengslum við hátíðina.

Parazynski með sigurvegurum úr Borgarhólsskóla á Húsavík.
Parazynski með sigurvegurum úr Borgarhólsskóla á Húsavík. ljósmynd/Gaukur Hjartarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert