Krefjast þess að menntamál verði sett í forgang

Háskóli Íslands. Mynd úr safni. Stúdentafélög allra háskóla á Íslandi …
Háskóli Íslands. Mynd úr safni. Stúdentafélög allra háskóla á Íslandi standa nú fyrir undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að stjórnvöld setji menntamál í forgang. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stúdentafélög allra háskóla á Íslandi standa nú fyrir undirskriftasöfnun á vefslóðinni www.haskolarnir.is þar sem þess er krafist að stjórnvöld setji menntamál í forgang og fylgi settri stefnu um fjármögnun háskólakerfisins.

Í fréttatilkynningu frá stúdentafélögunum segir að nemendur hafi allt of lengi þurft að búa við undirfjármögnun háskólanna, sem bitni m.a. á kennslu og aðstöðu í háskólunum og ekki síður framþróun í samfélaginu.

„Enn fremur er ljóst að ef ekki er lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þarf á endanum að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði,“ að því er segir í tilkynningunni.

Þegar hafa um 5.000 manns skrifað undir áskorunina, sem svarar til um fjórðungs allra háskólanema í landinu. 

Í áskoruninni eru stjórnvöld hvött til að hækka framlag ríkisins til skólanna þannig að árið 2020 verði það orðið jafnhátt framlögum annarra Norðurlandaþjóða á hvern háskólanema.

„Viðvarandi undirfjármögnun háskólanna dregur úr framþróun í samfélaginu og samkeppnishæfni landsins. Enn fremur er ljóst að ef ekki er lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þarf á endanum að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert