Segir svar sitt „algjört flopp“

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir álag undanfarna vikna hafa …
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir álag undanfarna vikna hafa gert var við sig er hún fékk mígrenikast í miðjum pallborðsumræðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, baðst í dag afsökunar á ummælum sínum á pallborðsumræðum frambjóðenda á þingi ASÍ í gær. Myndbandi af svörum Ástu Guðrúnar er deilt á Vinnumarkaðinum, nýstofnaðri og nafnlausri Facebook-síðu.  Þar sést Ásta Guðrún svara fyrirspurn um stefnu Pírata í vinnumarkaðsmálum á þá leið að stefna flokksins í þeim málum sé „kannski ekki sérstaklega mikil. Það verður bara að viðurkennast enda erum við nýr flokkur“, segir hún.

Ásta Guðrún hefur nú beðist afsökunar á ummælum sínum og ber við mígreni í samtali við DV, sem segir „nýliðaspilið“ hafa vakið litla hrifningu viðstaddra. Sú fullyrðing hennar að Píratar væru með sterka nýsköpunarstefnu, sem felist m.a. í því að sækja um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu, hafi hins vegar vakið hlátur viðstaddra.

Í samtali við DV segir Ásta Guðrún svar sitt hafa verið „algjört flopp“. „Það geta allir átt sinn slæma dag og sá dagur rann upp hjá mér þegar mígreni helltist yfir mig meðan ég stóð á sviðinu. Ég vona að þið getið sýnt því skilning,“ segir hún og kveður álag síðustu daga hafa sagt til sín.

„Ég var að berjast við það allan tímann að það myndi ekki líða yfir mig á sviðinu og ég gat ekki hugsað skýrt, ekki komið frá mér almennilegum setningum eða neitt. Ég fann það, en mér fannst ekki eins og ég gæti bara stigið niður af sviðinu í miðjum klíðum. Kannski hefði ég átt að gera það, þessi frammistaða hjá mér á þessu þingi var ekki góð, og ég viðurkenni það alveg fúslega,“ segir Ásta Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert