Nagladekkin áður fyrr eini rökrétti kosturinn

Í meðalári eru aðstæður á götum höfuðborgarinnar flesta daga þannig …
Í meðalári eru aðstæður á götum höfuðborgarinnar flesta daga þannig að ökumenn komast vel leiðar sinnar á hefðbundnum vetrar- eða heilsársdekkjum. Ekki eru þó allir tilbúnir að sleppa nöglunum. mbl.is/Árni Sæberg

Nagladekk vekja sterkar tilfinningar hjá mörgum og þótt forsvarsmenn Reykjavíkurborgar letji ökumenn til að nota nagladekkin, sem þeir segja spæna upp malbikið og auka á svifryksmengun, eru ekki allir tilbúnir að leggja nöglunum.

„Áður fyrr gátu nagladekk verið eini rökrétti kosturinn,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu. „Undanfarin ár hefur hins vegar orðið mikil þróun í vetrardekkjum og nú eru komin alls konar dekk sem ekki voru í boði áður.“

Nú orðið sé hægt að fá naglalaus dekk sem nýtist við flestar aðstæður í vetrarakstri, einkum innanbæjar. „Þó að mér sé illa við að alhæfa,“ bætir hún við. Samgöngustofa geti þó ekki mælt með einhverri einni dekkjategund umfram aðra, þar sem hjólbarðar séu jafn mismunandi og framleiðendur þeirra séu margir. Auðvelt er orðið að afla sér upplýsinga um gæði dekkja því alltaf eru gerðar staðlaðar prófanir.

Þarf nagla allan veturinn fyrir eina sveitaferð?

Þórhildur segir ökumenn gera vel við val á dekkjum að velta því fyrir sér hvert þeir keyri oftast. „Þarf maður í alvörunni að vera á nagladekkjum innanbæjar allan veturinn til að geta komist einu sinni upp í sveit í febrúar?“ Í meðalári séu aðstæður á götum flesta daga þannig að ökumenn komist vel leiðar sinnar á hefðbundnum vetrar- eða heilsársdekkjum.

Þeir sem eru á ferðinni úti á landi eða fara um fjallvegi þurfa hins vegar að hugsa öðruvísi og þá eru góð nagladekk enn öruggasti kosturinn á blautu svelli. „Það er þó ekki nóg að vera bara með nagladekk, vegna þess að aksturinn þarf alltaf að vera í samræmi við aðstæður,“ segir Þórhildur.

Útbúnaður bílsins, m.a. bremsurnar, þarf sömuleiðis að vera í lagi. „Það skiptir máli að bíllinn sé í ástandi til að aka miðað við aðstæður,“ segir hún og bætir við að ökumaðurinn þurfi sömuleiðis að aka af ábyrgð. „Það er alltaf númer eitt, tvö og þrjú og jafnvel mikilvægara en val á dekkjum.“

Hraðinn alltaf lykilatriði

Hámarkshraði miðist alltaf við bestu aðstæður, þannig að um leið og eitthvað skerðist - veður, skyggni, færð eða yfirborð vegar - verði að draga úr hraða, enda sé hann algjört lykilatriði er kemur að hemlunarvegalengd. „Hraðinn er algjört lykilatriðið, því ef aðstæður eru aðrar en bestu aðstæður þurfa ökumenn alltaf að draga úr hraða,“ segir Þórhildur en kveður yfirborð vega, dekkjaval og ástand, ásamt ástandi ökutækis, þó vissulega líka hafa áhrif.

Spurð hvort Samgöngustofa telji 3,0 mm mynstursdýpt duga við allar aðstæður, eins og reglur kveða á um fyrir vetrardekk, segir hún svo ekki vera.

„Lágmarks mynstursdýpt er samkvæmt reglugerð 3,0 mm en ef það er bleyta og svell þarf meira og jafnvel nagla“ segir Þórhildur. „Suma daga er líka bara ófært hér á Ísland og þá skiptir kannski ekki öllu máli hvort það eru naglar undir bílnum.“ 

Hún segir langflesta virða þessi ráð og fara varlega. „Góð vísa verður hins vegar aldrei of oft kveðin og það þarf ekki nema augnabliks gáleysi til að eyðileggja líf margra. Óþarfa áhætta í akstri er aldrei þess virði að taka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert