Ráðherra setji öryggi veiðimanna í forgang

Skotvís segir að þrenging á veiðitíma á fjórar helgar geri …
Skotvís segir að þrenging á veiðitíma á fjórar helgar geri það að verkum að veiðimenn leggi á fjöll í tvísýnu veðri. mbl.is/Golli

Formaður Skotvís lýsir yfir þungum áhyggjum af því sinnuleysi sem umhverfisráðherra hafi sýnt gagnvart þeirri hættu sem ákvörðun veiðitímabils rjúpu skapi veiðimönnum. Hann bendir á, að ekki hafi mátt tæpara standa um helgina þegar tveir veiðimenn hafi verið mjög hætt komnir eftir að hafa villst í þoku.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Dúi J. Landmark, formaður Skotvís, hefur sent, en þar hvetur hann ráðherra til að setja í forgang öryggi þeirra 6.000 Íslendinga sem gangi til rjúpna.

Hann segir að félagið og Umhverfisstofnun hafi ítrekað bent á þessa hættu.

„Ekki mátti tæpara standa um síðastliðna helgi þegar tveir veiðimenn voru mjög hætt komnir eftir að hafa villst í þoku. Því vill stjórn Skotvís ítreka þá skoðun sína að þrenging veiðitíma niður á 4 helgar gerir það að verkum að veiðimenn leggja á fjöll í tvísýnu veðri.

Um langan tíma hefur Skotvís varað við hættunni sem þessu er samfara, og þessi atburður sýnir svart á hvítu að hættan er raunveruleg og mikil. Til allrar hamingju fundust mennirnir heilir á húfi en það er skýlaus krafa veiðimanna að stjórnvöld rýmki veiðitímann til að minnka líkurnar á að atburður sem þessi endurtaki sig.

Gögn Umhverfisstofnunar frá veiðimönnum sýna að veiðimenn fara að meðaltali tæplega 4 daga á fjöll til rjúpnaveiða að jafnaði, sama hvort veiðitímabilið hefur verið 9 dagar eða 47. Fleiri leyfðir veiðidagar þýða því ekki meiri veiði heldur dreifðara álag og minni áhættu. Ekkert í hegðan veiðimanna bendir til þess að veiðidögum muni fjölga, þó að veiðimenn geti valið þá daga sjálfir, og haldið til fjalla þegar veðurspá er hagstæð. Vonandi kemur sá dagur að sitjandi umhverfisráðherra setji í forgang öryggi þeirra 6.000 Íslendinga sem ganga til rjúpna, það er leikur einn án þess að ganga nærri rjúpnastofninum,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert