Máli flugumferðarstjóra vísað frá

Hæstiréttur vísaði málinu frá.
Hæstiréttur vísaði málinu frá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hæstiréttur Íslands hefur vísað frá máli Félags íslenskra flugumferðarstjóra gegn Samtökum atvinnulífsins og íslenska ríkinu.

Félagið krafðist þess að viðurkennt yrði að sér væri heimilt, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 45/2016 um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra, að efna til verkfalls í samræmi við ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Einnig krafðist félagið þess að kjör félagsmanna sinna yrðu ekki ákveðin af gerðardómi , samkvæmt fyrrnefndu lögunum.

Frétt mbl.is: Flugumferðarstjórar ekki sáttir

Í dómi Hæstaréttar kom fram að sama dag og héraðsdómur var kveðinn upp hefðu deiluaðilar gert með sér sátt til að ljúka gerðarmeðferðinni.

Samkvæmt henni hefði verið samið um að kjarasamningur þeirra frá því í júní 2016, sem áður hafði verið felldur í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Félags íslenskra flugumferðarstjóra, skyldi gilda með þeim bókunum og samkomulagi, sem honum hefðu fylgt, og yfirlýsingum sem gefnar hefðu verið í tengslum við samningsgerðina.

Í ljósi þess að bundinn hefði verið endi á kjaradeilu félagsins og viðsemjanda þess  með gerð kjarasamnings var talið að Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um dómkröfur sínar. Þess vegna var málinu vísað frá Hæstarétti.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra var einnig dæmt til að greiða  Samtökum atvinnulífsins og íslenska ríkinu, hvorum um sig, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra skaut málinu til Hæstaréttar 2. ágúst síðastliðinn. Um tveimur vikum áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur sýknað íslenska ríkið og Samtök atvinnulífsins af kröfum félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert