Forseti standi ekki í veginum

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Bessastaðaskansi í morgun.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Bessastaðaskansi í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég vænti þess að viðræðurnar núna gangi vel, menn segjast vera í þessu af heilum hug. Ef ekki, verður það að koma í ljós á næstum dögum,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Hann var í morgun viðstaddur afhjúpun á upplýsingaskilti við gamlar minjar á svonefndum Skansi í landi Bessastaða þar sem blaðamaður mbl.is tók hann tali.

Á Bessastaðaskansi var á 17. og 18. öld fallbyssuvirki til þess að verjast hugsanlegum árásum á Ísland. Rústir þess standa enn og fróðleik um þær að finna á skiltinu góða. „Það er gaman að farið sé aftur á bak í sögu Bessastaða. Hlutverk forsetans nú er hins vegar að móta söguna í hina áttina,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson.

Forystumenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hófu í gær formlegar stjórnarmyndunarviðræður og voru í dag að skrifa stjórnarsáttmála. „Miðað við yfirlýsingar þeirra sem að viðræðum koma virtist geta brugðið til beggja átta. Menn ákváðu hins vegar að halda áfram og nú er bara að sjá hvernig gengur,“ sagði forsetinn. 

Staðan var flókin 

Aðspurður hvort Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem hefur stjórnarmyndunarumboðið, hafi af hálfu forseta verið gefinn óeðlilega rúmur tími til viðræðna, án þess að sýnilegur árangur kæmi fljótt í ljós, segir Guðni Th. Jóhannesson svo ekki vera.

„Menn verða að hafa í huga að eftir kosningar var staðan flókin. Það var ekki hægt að mynda tveggja flokka ríksstjórn og því þarf að sýna biðlund gagnvart því að viðræður forystumanna flokkanna nú skili árangri. Við vitum líka að viðræður um myndun nokkurra flokka stjórna fyrr á tíð gátu tekið talsverðan tíma, og það má alls ekki vera þannig að forseti standi í vegi fyrir myndun stjórnar sem meirihluti á Alþingi er sáttur við.“

Á Bessastaðaskansi við upplýsingaskiltið sem þeir Gunnar Einarsson bæjarstjóri og …
Á Bessastaðaskansi við upplýsingaskiltið sem þeir Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhjúpuðu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert